Velferðarþjónusta: samningur sveitarfélaganna undirritaður

Frá undirritun samningsins í gær í Félagsheimilinu í Bolungavík. Það vantaði fulltrúa Kaldrananeshrepps. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Forsvarsmenn átta sveitarfélaga af níu á Vestfjörðum undirrituðu í gær samning um sérhæfða velferðarþjónustu á Vestfjörðum. Níunda sveitarfélagið er Strandabyggð, sem mun bætast við á næstunni og verða aðili að samningnum.

Samkvæmt samningnum er Ísafjarðarbær leiðandi sveitarfélag og tekur að sér framkvæmd verkefna sem samningurinn tilgreinir. Önnur aðildarsveitarfélög fela Ísafjarðarbæ með samningnum vald til töku ákvarðana í málaflokkum sem heyra undir samningninn. Ísafjarðarbær getur svo framselt vald til nefnda eða starfsmanna Ísafjarðarbæjar.

Um er að ræða barnaverndarþjónustu og þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir bæði framkvæmd og rekstur.

Almenn velferðarþjónusta verður áfram rekin hjá hverju þjónustusvæði fyrir sig en svæðin eru fjögur á Vestfjörðum:

a) Ísafjarðarbær og Súðavík

b) Bolungavíkurkaupstaður

c) Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð og Reykhólahreppur

d) Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð.

Samningurinn er til eins árs og verður að þeim tíma liðnum væntanlega framlengdur.

DEILA