Fjórðungsþing: styðji áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum

Teitur Björn Einarsson, alþm.
Teitur Björn Einarsson, alþm. í ræðustól og hjá honum stendur Kristján Jón Guðmundsson, flutningsmaður tillögu um stuðning við fiskeldi á Vestfjörðum.

Kristján Jón Guðmundsson , fulltrúi frá Bolungavík hefur lagt fram tillögu á yfirstandandi Fjórðungsþingi þar sem lagt er til að þingið lýsi yfir stuðningi við áframhaldandi uppbyggingu sjókvíaeldis á Vestfjörðum. Jafnframt er lagt til að Fjórðungsþing Vestfirðinga skori á stjórnvöld að auka fjármagn til rannsókna á áhrifum fiskeldis á lífríkið og til miðlunar fræðslu um umhverfisleg, efnahagsleg og samfélagsleg áhrif sjókvíaleldis á Íslandi.

Í greinargerð segir eftirfarandi:

„Á undanförnum árum hefur sjókvíaeldi byggst upp á Vestfjörðum og með þeirri uppbyggingu hefur orðið algjör viðsnúningur í atvinnulífi og byggðaþróun á Vestfjörðum. Byggðir sem áður töldust vera deyjandi samfélög eru nú farnar að blómstra og bjartari framtíð blasir við íbúum Vestfjarða. Mikilvægt er að sjókvíaeldið fái að þróast og að þekking á eldinu verði bætt með auknum rannsóknum og aukinni fræðslu um áhrifin af þessari nýju atvinnugrein sem er að skjóta rótum á Íslandi.“

Í umræðum um tillöguna lýstu Teitur Björn Einarsson, alþm yfir stuðningi við fiskeldið á Vestfjörðum, jafnframt því að brýna þingfulltrúa til þess að standa með Vestfjörðum. Hann sagði að forsenda blómlegrar byggðar á Vestfjörðum væri uppbygging í atvinnulífi og þar væri fiskeldið helsti vaxtarbroddurinn. Mikill áróður væri rekinn í þjóðfélaginu um þessar mundir gegn fiskeldi og staðan væri að mörgu leyti alvarleg. Væri að þeim sökum mikil þörf á því að standa með atvinnugreininni og fólkinu sem hefur atvinnu sína af henni.

DEILA