Fjórðungsþing framundan – umhverfi og ímynd Vestfjarða

Frá fjórðungsþingi 2018. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Fjórðungsþing Vestfirðinga verður haldið í Félagsheimilinu í Bolungavík næstkomandi föstudag og laugardag.

Yfirskrift þingsins er Umhverfi og ímynd Vestfjarða og munu Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis, orku og loftslagsráðherra, Guðmundur Fertram Sigurjónsson forstjóri Kerecis og Björvin Sævarsson ráðgjafi Yorth Group sem er að vinna verkefni fyrir Reykhólahrepp vera frummælendur um umfjöllunarefni þingsins auk starfsmanna Vestfjarðastofu Hjörleifs Finnssonar og Önnu Sigríðar Ólafsdóttur.

Að loknum framsöguerindum verður pallborð um umfjöllunaefnið. Þessi dagskrárliður hefst kl 12:30 á föstudaginn.

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga flytur sérstaka tillögu um orkumál sem nefnist Vestfirðir úr biðflokki í verkefnaflokk. Þar er minnt á einróma samþykkt þingsályktunar Alþingis frá 2018 um að setja Vestfirði í forgang í raforkumálum. Í ályktun Alþingi kemur fram að Vestfirðir verði líkt og aðrir landshlutar eigi síðar en árið 2030 með hringtengt flutningskerfi eða ígildi þess.

Í ályktunartillögu stjórnarinnar segir: „Fjórðungsþing Vestfirðinga telur því, að nú að fimm árum liðnum frá ákvörðun Alþingis að setja Vestfirði í forgang, þá liggi allar forsendur málsins nú fyrir. Krafa Fjórðungsþings Vestfirðinga er að stjórnvöld taki fyrir lok árs 2023 þær ákvarðanir sem nauðsynlegar eru til að að umbylta flutningsmálum raforku og framleiðslu raforku innan Vestfjarða.“

DEILA