Ísafjörður: Veðurstofan vill færa veðurstöð frá Úlfsá

Veðurstofa Íslands hefur óskað eftir heimild til þess að færa sjálfvirka veðurstöð stofnunarinnar við Úlfsá í Skutulsfirði og ber við breyttum aðstæðum við veðurstöðina. Farið er að þrengja að veðurstöðinni. Athugaðir hafa verið mögulegir staðir í næsta nágrenni og þá með það í huga að ekki verði miklar breytingar á veðurlagi.

Þykir vænlegra til lengri tíma litið að flytja veðurstöðina inn í land. Vænlegastur þykir staður á golfvellinum Þar er fátt sem truflar mælingar og staðsetningin uppfyllir mestu kröfur til mælinga á einstökum veðurþáttum.

Sjálfvirk veðurstöð er 10 metra hátt mastur til vindmælinga sem er einnig nýtt til raka- og hitamælinga. Úrkomumælingar eru gerðar með 1,5 metra háu mastri frístandandi í nokkurra metra fjarlægð frá hinu mastrinu. Staðsetning verður endanlega ákvörðuð í samráði við umsjónarmenn golfvallarins.

Skipulags- og mannvirkjanefnd frestaði málinu og fól starfsmanni að kalla eftir umsögn Golfklúbbs Ísafjarðarbæjar vegna málsins.

DEILA