Önundarfjörður : nýtt deiliskipulag í landi Bóls

Lögð fram tillaga að nýju deiliskipulagi í landi Bóls í Önundarfirði, vegna Selakirkjubóls 1.

Tillagan tekur til jarðanna Selakirkjuból 1, Ból og Ból 2, sami eigandi er að þeim öllum. Þessar jarðir hafa verið í eyði í allmarga áratugi en reist hefur verið eitt frístundarhús á Bóli.

Fyrirhugað er að breyta frístundahúsinu í íbúðarhús með heilsársbúsetu. Einnig er gert ráð fyrir tveimur frístundahúsum ásamt gestahúsi/geymslu og 2-4 landbúnaðarbyggingum ásamt vélageymslum/ verkstæðum.

Selakirkjuból er forn bújörð sem var talin tólf hundruð að dýrleikum, hún er skráð sem lögbýli í eyði. Á fyrri hluta 20. aldar var jörðinni skipt í Selakirkjuból, Selakirkjuból 2-4 og Hreggnasa.

Elstu heimildir um Selakirkjuból eru frá 1460 en þá var jörðin ein af eignum Guðmundar Arasonar ríka. Deiliskipulagssvæðið er norðan við gamla bæjarstæði Selakirkjubóls og sunnan við Kaldá sem rennur úr Kaldárdal.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila auglýsingu deiliskipulags fyrir Selakirkjuból I. 

DEILA