Viðhorf íbúa landsbyggðarinnar til bráðaþjónustu í heimabyggð

Heilbrigðisráðuneytið hefur birt niðurstöður könnunar se gerð var fyrir ráðuneytið á viðhorfum fólks á landsbyggðinni til bráðaþjónustu í heimabyggð.

Könnunin veitir m.a. innsýn í ólík viðhorf og væntingar fólks til þjónustunnar s.s. eftir búsetu, aldri, reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð og ýmsum fleiri þáttum.

Þegar spurt er um afstöðu svarenda til núverandi fyrirkomulags bráðaþjónustu í þeirra heimabyggð segist rúmlega helmingur (55%) ánægður með fyrirkomulagið. Nokkur munur er á þessu viðhorfi eftir heilbrigðisumdæmum þar sem ánægðastir eru þeir sem búa á Norðurlandi og Vesturlandi, en síst þeir sem búa á Vestfjörðum og Suðurnesjum. Ánægja með fyrirkomulag þjónustunnar eykst með hækkandi aldri. Minnst er ánægjan hjá þeim sem eru 18-29 ára (42%) en mest hjá 70 ára og eldri (63%). 

Aðspurðir um þætti sem gætu aukið öryggi bráðaþjónustu við fólk í heimabyggð svara flestir því til að bætt mönnun á næstu heilsugæslustöð eða næsta sjúkrahúsi myndi skipta mestu en margir nefna einnig styttri viðbragðstíma sjúkraflutninga, þ.e. með sjúkrabílum, þyrlu eða sjúkraflugvél. Fram kemur munur á svörum eftir heilbrigðisumdæmum, sem endurspeglar hvort íbúar reiða sig í meira mæli á sjúkrabíla eða sjúkraflug. Af einstökum þjónustuþáttum bráðaþjónustu sem spurt er um telja flestir mikilvægast að bæta bráðaþjónustu á næstu heilsugæslustöð eða sjúkrahúsi vegna minni háttar veikinda eða slysa en bætt fæðingarþjónusta skorar einnig hátt, sérstaklega í heilbrigðisumdæmi Austurlands.

Þá nefnir hærra hlutfall íbúa í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða en í öðrum umdæmum að bæta þurfi bráðaþjónustu á vettvangi vegna alvarlegra veikinda eða slysa.

Spurt var hvort svarendur hefðu reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð. Um 87% þeirra höfðu reynslu af bráðaþjónustu í heimabyggð, ýmist sem aðstandendur einhverra sem þurftu á bráðaþjónustu að halda (47%) eða af eigin reynslu (39%). Um 3,8% svarenda starfa við bráðaþjónustu í heimabyggð. Tæplega 31% sagðist enga reynslu hafa af bráðaþjónustu í heimabyggð.

.

Framkvæmd könnunarinnar var styrkt af Byggðaáætlun. Hún er hluti af aðgerð A3 sem fjallar um bráðaviðbragð neyðarþjónustu og var unnin í samstarfi við dómsmálaráðuneytið. Könnunin fór fram á netinu. Í úrtaki voru 2.260 manns 18 ára og eldri, utan höfuðborgarsvæðisins og Akureyrar, auk 200 manna aukaúrtaks meðal íbúa Vestmannaeyja. Þátttaka var 44,8%.

DEILA