Ása Marta Sveinsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknarmiðstöð ferðamála segir það meginniðurstöðu fjölþjóðlegrar rannsóknar að hagaðilar á Ísafirði vilji takmarka fjölda skemmtiferðaskipa inn á svæðið.
Gagnaöflun hófst á Ísafirði í byrjun árs 2021 og stóð til fyrri hluta árs 2023. Tekin voru viðtöl við hagaðila og farið í þrjár vettvangsferðir til Ísafjarðar. Starfshættir hagaðila og umgjörð skemmtiskipa ferðamennsku á Ísafirði voru kannaðir og fylgst með móttöku skipafarþega í landi.
Að sögn Ásu benda niðurstöður rannsóknarinnar sterklega á að hagaðilar á Ísafirði vilja flestir takmarka komur skemmtiferðaskipa til Ísafjarðar. Þeir sem rætt var við voru sammála um að halda ætti áfram að efla Ísafjörð sem áfangastað skemmtiferðaskipa en þörf væri á að setja reglur um fjölda skipa eða fjölda farþega sem ættu að vera leyfðir til Ísafjarðar á dag yfir sumartímann. Margar áskoranir virðast fylgja slíkri ákvörðun og ekki allir sammála hvernig fara ætti að takmörkun.
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er aðili að fjölþjóðlegu rannsóknarverkefni sem nefnist Sjálfbær móttökusvæði skemmtiskipa á norðurslóðum: frá starfsháttum til stýringar (e. Sustainable Arctic Cruise Communities: from practice to governance). Verkefnið er styrkt til fjögurra ára, eða til vorsins 2024, af norska rannsóknaráðinu og hýst af Nord háskólanum í Bodø. Rannsóknin snýr að móttökusvæðum skemmtiferðaskipa á norðurslóðum þar sem leitað er bestu leiða til stýringar með sjálfbærni að leiðarljósi. Til rannsóknar eru aðstæður á völdum svæðum í norður Noregi, Grænlandi og Íslandi og var Ísafjörður valinn sem rannsóknasvæði íslenska hluta verkefnisins. Önnur rannsóknasvæði eru Lofoten, Honningsvåg, Alta og Nuuk.
Nú er verkefnið á lokametrunum og verður rafrænn samfélagsfundur á Zoom í næstu viku þann 4. október næstkomandi. Allir velkomnir.
Áhugasamir geta haft samband við Ásu Mörtu Sveinsdóttur asamarta@rmf.is til þess að fá boð á fundinn.