Ísafjarðarbær: hámarksútsvar 14,74%

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar leggur til við bæjarstjórn að útsvar næsta árs verði 14,74%, sem er hámarksálagning samkvæmt lögum. Lægst má útsvarsálagning vera 12,44%.

Í minnisblaði fjármálastjóra bæjarins kemur fram áætlað er að launavísitala næsta árs verði 5,8% hærri en á þessu ári. Launavísitalan er áætluð verða 8,9% hærri fyrir árið 2023 en hún var á síðasta ári.

Áætlun 2023 á staðgreiðslu útsvars gerir ráð fyrir 2,7 milljörðum í útsvarstekjur en þær forsendur miða við
4,7% hækkun á staðgreiðsluskyldum tekjum frá fyrra ári og 14,52% í útsvarsprósentu. Ef hækkun staðgreiðsluskyldra tekna á árinu 2023 nær að verða 8,9% þá ætti staðgreitt útsvar að vera hærra en áætlun sem nemur 115 m.kr. í lok árs.

Hækkun á útsvarsprósentu rennur hins vegar til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hefur því ekki áhrif á áætlun 2023.

Í minnisblaðinu segir að væntingar um að staðgreiðsluskyldar tekjur hækki um 166 m.kr. á næsta ári og verði um 2.866 milljónir króna.

DEILA