Fjármála- og efnahagsráðuneytið boðar mikla hækkun gistináttaskatts

Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld. Um er m.a. um að ræða ákvæði um gistináttaskatt, virðisaukaskatt, samtímabarnabætur, upplýsingaheimildir Skattsins, áfengisgjald, aukatekjur ríkissjóðs o.fl.

Áformin eru í samræmi við það sem fram kom í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár.

Efst á blaði yfir fyrirhugaðar breytingar eru breytingar á lögum um gistináttaskatt, nr. 87/2011, þannig að skatturinn verði lagður á hvern gest í stað gistieiningar, eins og nú er, og nái einnig til gesta í skemmtiferðaskipum sem dvelja á íslensku tollsvæði.

Gistináttaskattur kemur til framkvæmda á ný um áramót en hann var felldur niður tímabundið vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Áætlað er að hann skili að óbreyttu 1,5 milljarði kr. á komandi ári.

Þar við bætast áhrif hinna nýju áforma um að breyta útreikningsviðmiðum skattsins og gildissviði með útvíkkun til skemmtiferðaskipa. Vinna stendur nú yfir með hagaðilum þar sem mat verður lagt á ólíkar leiðir að breyttu gjalda- og skattaumhverfi ferðaþjónustu. Tekjuáhrif þeirra breytinga fyrir ríkissjóð eru áætluð 2,7 milljarðar kr. segir í áformaskjalinu.

Bæjarins besta hefur áður sagt frá þessum áformum sem þrefalda tekjur ríkissjóðs af gistináttaskattinum. Stærstur hluti viðbótarteknanna er sóttur til ferða skemmtiferðaskipanna um landið.

Um aðrar fyrirhugaðar breytingar í frumvarpinu segir að breytingar á lögum um virðisaukaskatt, vörugjald og áfengisgjald hafi áhrif til lækkunar á tekjur ríkissjóðs. Ekki er gert ráð fyrir því að aðrar breytingar sem lagðar verða til í frumvarpinu muni hafa teljandi áhrif á afkomu ríkissjóðs verði frumvarpið óbreytt að lögum.

Ætlunin er m.a. að sala á aðgangsmiðum í kvikmyndahús verði skipað í lægra VSK þrepið og að felld verði niður vörugjöld á rafvélsleða.

DEILA