Þingmaður og formaður þingnefndar vinnur fyrir veiðiréttarhafa

Bjarni Jónsson, alþm.

Bjarni Jónsson, alþm. og formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis hefur undanfarin 4 ár aðstoðað Sigurgísla Ingimarsson veiðiréttarhafa og leigutaka í Ísafjarðará við uppbyggingu á laxastofninum i ánni. Sigurgísli staðfestir það.

Bjarni getur þessara starfa ekki í hagsmunaskráningu sinni á vef Alþingis og segir þar ekki hafa nein launuð störf eða verkefni önnur en þingmannsstarfið.

Bjarni Jónsson var inntur eftir því hvort hann ynni fyrir veiðiréttarhafa í laxveiðiám og spurt sérstaklega um hvort hann ynni fyrir Hofsá og Miðfjarðará auk Ísafjarðarár. Svar hefur ekki borist við fyrirspurninni.

Síðustu fjögur ár hefur Bjarni Jónsson setið í samráðsnefnd um fiskeldi, tilnefndur af Guðmundi Inga Guðbrandssyni þáverandi umhverfis- og auðlindaráðuneytisráðherra. Matvælaráðherra skipaði nýja samráðsnefnd í ágúst síðast liðinn og lét Bjarni þá af störfum í nefndinni.

Nefndinni ber að taka til umfjöllunar mál sem snerta fiskeldi, meðal annars að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunnar byggist á. Í nefndinni eiga sæti fulltrúar frá umhverfis- og auðlindarráðuneytinu, Landsambandi veiðifélaga, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Hafrannsóknarstofnun og Sambandi íslenskra sveitafélaga. Þá skipar Matvælaráðherra formann nefndarinnar.

DEILA