Þingmaður kjördæmisins krefst tafarlausra aðgerða sem vernda villta laxinn

Bjarni Jónsson, alþm.

Bjarni Jónsson, alþm. Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi kvaddi sér hljóðs á Alþingi í vikunni og ræddi um strok eldislaxa úr kví í Patreksfirði. Sagði hann að upp væri komin gjörbreytt staða fyrir verndun villtra íslenskra laxastofna sem krefst tafarlausra aðgerða.

„Nú er það að gerast sem margir óttuðust, að kynþroska norskur eldislax syndi um þúsundum saman við strendur landsins eftir umhverfisslys, leiti uppi íslenskar ár til hrygningar og blandist þar við náttúrulega laxastofna með óafturkræfum áhrifum, við stofna sem aðlagast hafa einstökum ám og náttúru þeirra í þúsundir ára. Neikvæð áhrif slíkrar erfðablöndunar geta komið fram strax eða mörgum kynslóðum síðar og skaðað þannig erfðasamsetningu og aðlögunarhæfni laxastofna til framtíðar.“

Vildi þingmaðurinn að fram færi endurskoðun á áhættumati erfðablöndunar við norska eldislaxa og gripið yrði til aðgerða til að vernda stofnana, bæta eftirlit og draga þau stórfyrirtæki sem að baki standa til enn frekari ábyrgðar.

Bjarni var inntur eftir því hvort hann væri að kalla eftir því að endurskoðun áhættumatsins leiði til lækkunar magnsins sem ala má í sjó og þá hvar hann teldi að eigi að skera niður heimildir.

Hann segir í svari sínu að áhættumatinu væri ætlað að vera faglegt ferli til að meta aðstæður hverju sinni með tilliti til fyrirliggjandi gagna og undirbyggja ákvarðanir og stefnumörkun og að hann gæfi sér ekkert fyrirfram um niðurstöður slíkrar endurskoðunar.

Lögum samkvæmt er áhættumatið endurskoðað reglulega en þó ekki sjaldnar en með þriggja ára millibili. Hafrannsóknarstofnun vinnur að endurskoðun, en síðasta áhættumat erfðablöndunar var gert 2020. Þá var opnað á 12.000 tonna eldi af frjóum laxi í Ísafjarðardjúpi en burðarþolsmatið er 30.000.

DEILA