Strokulaxar: 40 kynþroska af 42

Guðni Guðbergsson, sviðsstjóri í Hafrannsóknarstofnun.

Af 42 strokulöxum sem Hafrannsóknarstofnun hefur greint voru að sögn Guðna Guðbergssonar, sviðsstjóra, 40 á kynþroska 3 og yfir stigi sem hefði leitt til hrygningar í haust. Tveir laxar voru á kynþroska stigi 2 sem þýðir að ekki er víst að þeir hefðu náð að þroska hrogn og svil þetta haustið en væri samt ekki útilokað. Hængar voru 60% eða 25 og 17 hrygnur. Guðni segir að munur á kynjafjölda geti skýrst af fjölda í úrtaki. Ekki er hægt að segja til um það hvert hlutfall kynþroska fisks hafi verið í kvínni við Kvígindisdal, sem gat kom á, út frá þessu úrtaki en þó ljóst að hlutfall kynþroka fisk hefur verið óvenjulegt.

Í rekstrarleyfi Arctic Fish fyrir sjókvíaeldinu segir að notast skuli við ljósastýringu á meðan dagsbirtu gætir ekki frá 20. september til 20. mars. Ljósastýringin er til þess að seinka kynþroska. Athugun er hafin á framkvæmd hennar.

Þegar lokið var við að slátra upp úr kvínni munaði 3.500 löxum á því sem út var sett og slátruðum, en þá á eftir að draga frá afföll seiða við útsetningu. Hver þau voru er ekki vitað.

Um 60 laxar bíða greiningar hjá Hafrannsóknarstofnun. Norskir kafarar hafa farið í nokkrar ár og skutlað laxa sem þeir telja að sé eldislax. Þeir veiddu 12 laxa í Ísafjarðará og hafa samtals eftir því sem næst verður komist skutlað 29 laxa.

DEILA