Patreksfjörður: námskeið fyrir björgunarhundasveitir

Hópmynd af þátttakendum á námskeiðinu. Myndir: Magni Smárason.

Dagana 15.-17. september var fjölmennt námskeið á vegum Björgunarhundasveitar ísland, BHSÍ, á Patreksfirði.

Að sögn Magna Smárasonar á Patreksfirði var mættur talsverður fjöldi eða 25 hundateymi (hundur og þjálfari móta saman eitt teymi), einn leiðbeinandi frá Ísafirði, Auður Yngvadóttir, einn „fígúrant“(sá sem leikur fórnarlambið við þjálfun hundanna) og tveir norskir hundaþjálfarar.

Almennt gekk þjálfun vel og nokkur teymi kláruðu próf, en hjá BHSÍ þarf hvert teymi fyrir sig að standast þrjú mismunandi stig.
Það er C-próf sem staðfestir að hundurinn er hæfur til áframhaldandi þjálfunar, B-Próf sem staðfestir að hundurinn sé hæfur til leitar í útköllum, en þarf engu að síður áframhaldandi þjálfun og svo A-próf sem staðfestir að hundurinn teljist fullþjálfaður. Þess fyrir utan þurfa hundarnir líka að þreyta hlíðnipróf.
Þá er prófunum líka skipt á milli Snjóflóðaleitar og víðavangsleitar, en teymin geta reynt sig við C,B og A í hvorum flokknum og dugar þá, sem dæmi, ekki fyrir teymi að hafa A eða B próf í víðavangsleit til að taka þátt í snjóflóðaleit ef þau hafa ekki A eða B í snjóflóðaleit. Þá þarf hvert teymi að standast endurmat á hverju ári til að halda A prófi.
Þetta námskeið var það síðasta af fjórum víðavangsnámskeiðum BHSÍ þetta sumarið.

Norsku hundaþjálfararnir John Skjørestad og Bodil Fischer Breidablik ferðuðust til Íslands til að taka þátt í þessu námskeiði en þau eru bæði meðlimir í bjorgunarhundasveitinni „Norske Redningshunde“ í Noregi. Þau héldu fyrirlestra, kynntu starf þeirra innan „Norske Redningshunde“ og voru innan handar í þjálfun. „Þótti mér þau mikill hafsjór fróðleiks og eiga þau þakkir skilið fyrir“ segir Magni.

„Fiskvinnslan Oddi Hf. Styrkti hópinn um 15 kg af ferskum þorskbitum og Verslunin Fjölval á Patreksfirði gaf allt meðlæti sem þurfti með. Þá komu frábærar konur frá Slysavarnardeildinni Unni á Patreksfirði til að elda fyrir mannskapinn á laugardalskvöld og var það ómetanlegt eftir vindasamann og blautan dag úti að fá gómsætan fiskrétt beint úr ofninum. Megi allir þessir aðilar fá innilegar þakkir mínar og annara félaga BHSÍ.“

Á sunnanverðum Vestfjörðum eru nú fjögur hundateymi sem starfa innan BHSÍ, öll á mismunandi stigum þjálfunar og tóku öll þessi teymi þátt í námskeiðinu um síðustu helgi.

Þau eru Þröstur Reynisson með border-collie hundinn Lappa, Guðmundur Pétur Halldórsson með Íslensku fjárhunds tíkina Bonku, Magni Smárason með Labrador tíkina Skruggu og svo bættist nýverið við hópinn Trausti með labrador hvolpinn Búra.

Nú í framhaldinu munu flestir meðlimir BHSÍ halda áfram víðavangsþjálfun meðan leyfir áður en skipt er yfir í Snjóflóðaleitina þegar snjóa tekur.

Tíkin Skrugga við björgunarsveitarbíl frá Bjsv. Blakk á Patreksfirði.




Guðmundur Pétur með Íslensku tíkina Bonku.

DEILA