Suðurtangi: fjölga atvinnulóðum

Lögð hefur verið fram skipulagslýsing um breytingar á deiliskipulagi á Suðurtanga þar sem markmiðið er að fjölga atvinnulóðum, m.a. í sjávartengdri starfsemi, og fækka íbúðarlóðum.

í lýsingunni, sem Verkís hefur unnið, segir að ákveðið hafi verið að hefja vinnu við endurskoðun á deiliskipulagi á Suðurtanga Skutulsfjarðareyrar:
annars vegar: Suðurtangi, hafnar- og iðnaðarsvæði [eystri hluti Suðurtanga – Sundabakki og Æðartangi] og hins vegar: Suðurtangi, íbúðar- og þjónustusvæði [vestari hluti Suðurtanga – Neðstikaupstaður og slippur].
Hvati skipulagsbreytinganna er aukin eftirspurn atvinnulóða á Ísafirði síðustu misseri. Í núgildandi aðalskipulagi og fyrrnefndu deiliskipulagi er ekki gert ráð fyrir þeim umsvifum sem nú eru á svæðinu og eru fyrirséð, einkum í tengslum við ferðaþjónustu og fiskeldi. Skapa þarf rými fyrir þessar og aðrar
atvinnugreinar og samræma sífellt fjölbreyttari starfsemi hafnarinnar á Ísafirði. Ísafjarðarhöfn hefur þróast úr því að vera fyrst og fremst fiskihöfn yfir í það að þjóna fjölbreyttri flóru báta og skipa í takt við stefnu bæjarins og hafnarinnar.

Deiliskipulagssvæði hafnar- og iðnaðarsvæðis á austurhluta Suðurtanga er um 10 ha að stærð og afmarkast af Ásgeirsgötu og Sundabakka að Sundahöfn í norðri og af íbúðar- og þjónustusvæði gildandi skipulags í vestri og suðri.

Deiliskipulagssvæði íbúðar- og þjónustusvæðis á vesturhluta Suðuranga er um 12,5 ha að stærð og afmarkast af Ásgeirsgötu og Ásgeirsbakka í norðri og af hafnar- og iðnaðarsvæði í austri.

Fyrr á þessu ári var gerð breyting á aðalskipulagi Ísafjarðarbæjar 2008-2020 og er nú gert ráð fyrir íbúðarbyggð á nýrri landfyllingu norðan Skutulsfjarðareyrar. Á Eyrinni er einnig tækifæri til þéttingar byggðar og fleiri möguleikar eru til stækkunar íbúðarsvæða í Skutulsfirði. Því hefur sú stefna verið mörkuð að falla frá íbúðarbyggð á Suðurtanga og fjölga atvinnulóðum á tanganum í takt við aukna eftirspurn þeirra.

Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til við bæjarstjórn að heimila málsmeðferð í samræmi við 40 gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

DEILA