Það þarf líka að fjármagna samgönguframkvæmdir !

Það hefur verið virkilega ánægjulegt að fylgjast með framkvæmdagleði í vegabótum á Vestfjörðum, sérstaklega á sunnanverðum Vestfjörðum, síðustu árin eftir áratuga stöðnun. Nú hillir undir að þverun Þorskafjarðar og vegurinn um Teigskóg verði opnaður hálfu ári fyrr en fyrirhugað var. Það verður svo sannarlega ánægjulegt því þá fækkar um einn háls á Vestfjarðavegi þegar Hjallaháls heyrir sögunni til.

Teitur Björn Einarsson þingmaður skrifar um óskiljanlegar tafir í vegaframkvæmdum í Gufudalssveit. Hann bendir réttilega á að í samgönguáætlun til fimm ára sem samþykkt var í júní 2020 var framkvæmdin fullfjármögnuð á þeim tíma sem hún var samþykkt, sú áætlun er í gildi þar til ný samgönguáætlun tekur við. En forsendur þeirra útreikninga hafa mikið breyst og það vitum við öll.

Veldur hver er á heldur

Flestir finna það á eigin skinni hversu mikið verðlag hefur hækkað frá árinu 2020, vextir og byggingarefni til brúarframkvæmda hafa hækkað gríðarlega. Fjármagnið sem áætlað var dugar ekki lengur til og hvað er þá til ráða?  Jú innviðaráðherra þarf ásamt okkur þingmönnum að leggjast á árarnar og kalla fjármálaráðherra að borðinu til að standa við samþykkta samgönguáætlun, sem allir ríkisstjórnarflokkarnir studdu.

Innviðaráðherra mun leggja fram samgönguáætlun nú á næstu vikum fyrir þingið. Teitur Björn telur að þörf verði á að halda innviðaráðherra og samgönguyfirvöldum við efnið og þrýsta á að staðið verði við gefin fyrirheit. Innviðaráðherra Sigurður Ingi Jóhannsson hefur haldið fast við þá ákvörðun síðan hann tók við samgöngumálum að klára það verk að koma sunnanverðum Vestfjörðum á nútímaveg að þjóðvegi 1, með því verki verður settur lokapunktur á langan og íþyngjandi kafla sem hefur tekið á íbúa fjórðungsins.

Ekki stendur á mér að þrýsta, ýta, pota og berja í borðið við að klára það einbeitta verk sem innviðaráðherra hóf og ég veit að Teitur Björn ýtir á fjármálaráðherra í sama tilgangi. Þannig vinnum við saman að góðu verki.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

DEILA