Púkinn í Bolungarvík

Á mánudag hófst barnamenningarhátíðin Púkinn. Hátíðin er ætluð öllum grunnskólabörnum á Vestfjörðum og er hún sú fyrsta sinnar tegundar á svæðinu.

Meðal viðburða á hátíðinni er Skápur forvitninnar eða undraskápurinn eins og hann er einnig nefndur.

Þetta er skápur fullur af áhugaverðum hlutum sem starfsfólk Grunnskóla Bolungarvíkur hefur safnað saman.

Hugmyndin er að gefa börnum möguleika á að skoða og skilja menningu svæðisins og landsins betur ásamt því að efla lestur í hvers kyns formi.

Undraskápar eða forvitniskápar (e. cabinets of curiosities) komu fyrst fram í Evrópu á 16. öld.

Þessir skápar eða herbergi eins og þau gátu líka verið voru staðir þar sem einstaklingar söfnuðu fágætum eða sjaldgæfum munum. Skáparnir/herbergin gátu innihaldið listaverk, náttúru og jarðfræðilegt efni/hluti, uppstoppuð dýr, hversdagslega hluti eða hvað annað sem safnarinn hafði áhuga á.

Undraskápurinn í Grunnskóla Bolungarvíkur inniheldur hluti sem starfsmenn skólans hafa áskotnast í gegnum tíðina og eru tilbúin að sýna. Í skápnum má finna muni eins og áttavita frá 1926, gamla mynt frá miðri 20. öld, kasettu tæki, ferðabangsa, 60 ára gamlan Ken (eiginmann Barbie) og markaskrá ásamt fleiri áhugaverðum munum til að skoða.

DEILA