Hnífsdalur: sambandsfundur vestfirskra kvenna

Þann 2 september sl. var sambandsfundur vestfirskra kvenna haldinn í Félagsheimilinu í Hnífsdal. Kvenfélagið Hvöt var boðsfélag fundarins.

17 konur sátu fundinn frá 6 kvenfélögum á Vestfjörðum, þar sem slæmt veður hafði áhrif á mætingu.

Hefðbundin fundarstörf fóru fram og lögð voru drög að undirbúningi að landsþingi Kvenfélagsambands Íslands sem haldið verður á Ísafirði í október 2024.

Kvenfélagskonur í Hvöt buðu konum í heimsókn í Tónlistarskóla Ísafjarðar þar sem Albert Eiríksson og Bjarney Ingibjörg Gunnlaugsdóttir tóku á móti gestum og fóru yfir sögu Húsmæðraskólans og Tónlistarskólans. Að lokinni sögustund var boðið upp á hádegisverð á kennarastofu skólans og sá Albert Eiríksson um veitingarnar.

Að loknum fundi var boðið til hátíðarkvöldverðar, þar sem kvenfélagskonur elduðu dýrindis fiskisúpu og í eftirrétt var boðið upp á guðdómlegt gums.

Dagurinn heppnaðist vel og fara kvenfélagskonur fullar af orku inn í nýtt starfsár þar sem hefðbundið starf fer fram ásamt undirbúningi fyrir landsþing 2024 segir í frétt kvenfélagsins Hvatar um fundinn.

Hraðfrystihúsinu Gunnvör, Þresti Marzellíusar ehf, Örnu mjólkurvörum og Kampa ehf var sérstaklega þakkað fyrir góðan stuðning.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hafnaði beiðni kvenfélagsins Hvöt í Hnífsdal um styrk til þess að halda hátíðarkvöldverð á Sambandsfundi Vestfirskra kvenna en tíðkast hefur að styrkja kvöldverðinn.

DEILA