Fjárlagafrumvarp 2024: skoða uppkaup á skólahúsnæði á Bíldudal

Bíldudalskóli. Byggja á nýjan skóla á Bíldudal

Í fjárlagafrumvarpi næsta árs sem lagt var fram í gær er lagt til að fjármálaráðherra fái heimild til þess að ganga til samninga við Vesturbyggð um ráðstöfun á Bíldudalsskóla vegna áformaðra framkvæmda við ofanflóðavarnir á svæðinu.

Í skýringum sem fylgja með frumvarpinu segir að heimildin nái til þess að ganga til samninga við Vesturbyggð um að fjarlægja skólahúsnæði á skilgreindu hættusvæði í Bíldudal í stað þess að Ofanflóðasjóður ráðist í kostnaðarsamar framkvæmdir við að verja húsnæðið.

Lög nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum heimili ekki greiðslur úr Ofanflóðasjóði til sveitarfélaga til að mæta kostnaði þeirra við að flytja starfsemi af hættusvæði og þá eftir atvikum til að kaupa eða byggja annars staðar en á hættusvæði eða ráðast í breytingar á húsnæði utan hættusvæða í stað þess að reisa varnargarð. Af þeim sökum er þörf á að afla sérstakrar heimildar til samningsgerðarinnar við sveitarfélagið. Talið er að það muni leiða til hagkvæmari niðurstöðu bæði fyrir ríkið og sveitarfélagið að ná samkomulagi um að starfseminni verði fundinn nýr staður utan hættusvæðis segir í skýringunum.

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð segir í svari við fyrirspurn Bæjarins besta að á næstu vikum verði ákveðið hvort það verði farið í hönnun á sérstöku ofanflóðamannvirki til að verja Bíldudalsskóla eða hvort að samið verði við Vesturbyggð um uppkaup á húsnæðinu í samræmi við heimildina í frumvarpinu. „Við erum nú að meta kosti og kostnað við hvora leiðina fyrir sig“ segir Þórdís Sif.

Á síðasta ári var allt skólahald flutt úr skólanum vegna myglu sem kom í ljós við úttekt verkfræðistofunnar Eflu.

DEILA