Heimska valin besti skandinavíski skáldskapurinn

Eiríkur Örn Norðdahl.

Heimska, bók Eiríks Arnar Norðdahl, hefur verið valin besti skandinavíski skáldskapurinn af franska bókmenntatímaritinu Transfuge. Heimska gerist í óskilgreindri framtíð, í eftirlitssamfélagi framtíðarinnar. Í umsögn franska tímaritsins við veitingu verðlaunanna segir að Eiríki Erni Norðdahl takist að koma þema sögunnar fram á ólíkum stigum og dýpt, hann taki áhættu og takist vel til. Honum takist gríðarlega vel að útfæra hugmyndina um eftirlitssamfélag sem gerist í póst-módernísku samfélagi.

Eiríkur er að vonum ánægður með verðlaunin „Ég er mjög kátur yfir þessu öllu saman, einsog vera ber. Heimska kom líka út í Svíþjóð í nóvember og hefur fengið feykifína dóma þar. Þetta er ekki síst gleðilegt vegna þess að bókin kom hálfskakkt út úr jólabókaflóðinu. Það munar um minna, að eiga annan séns – að ég tali ekki um þann þriðja – þegar maður býr á lítilli eyju.“

Þetta er í annað sinn sem Eiríkur hlýtur þessi verðlaun, en hann hlaut þau einnig fyrir skáldsöguna Illsku. Fyrir Illsku hlaut
hann einnig Íslensku bókmenntaverðlaunin.

brynja@bb.is

DEILA