Lengjudeildin: sigurganga Vestra heldur áfram

Á laugardaginn fékk Vestri lið Þróttar Reykjavík í heimsókn í síðasta heimaleik deildarinnar. Þróttur er í harðri fallbaráttu og þurfti nauðsynlega að sækja stig. Í leikhléi var staðan jöfn og markalaus en það breyttist í upphafi síðari hálfleiks þegar Þróttarar skoruðu og tóku forystuna. Nánast jafnharðan svöruðu Vestramenn með jöfnunarmarkinu og á 75. mínútu kom sigurmark Vestra þegar leikmaður Þróttar setti boltann í eigið mark eftir sendingu fyrir markið frá hinum síógnandi Benedikt Warén.

Með sigrinum tryggði Vestri sér fjórða sætið í deildinni þótt enn sé ein umferð eftir. Er Vestri með 36 stig og í 5. sæti er Leiknir Reykjavík með 32 stig og getur ekki náð Vestra að stigum. Fjölnir er í 3. sæti með 39 stig og 9 mörkum betri markamun en Vestri, svo það er ólíklegt að Vestri nái 3. sætinu af Fjölni.

Líklegast er að Vestri mæti Fjölni í umspilinu sem hefst að lokinni deildinni. Leikið verður heima og að heiman. Sigurvegarinn í þeirri viðeign mætir vinningsliðinu úr umspili liðanna í 2. og 5. sæti og verður leikinn hreinn úrslitaleikur um sæti í Bestu deildinni.

DEILA