Matvælaráðuneytið: Fiskeldissjóði verði skipt í hlutfalli við framleiðslu og fjölda starfsmanna

Háafell ehf hefur hafið fiskeldi í Vigurál í Ísafjarðardjúpi. Fiskeldisgjaldið gefur miklar tekjur til hins opinbera.

Matvælaráðuneytið hefur sent sveitarfélögum til umsagnar tilllögur sínar um framtíð Fiskeldissjóðs og skiptingu þess fjármagns sem rennur í sjóðinn. Fellst ráðuneytið á gagnrýni sveitarfélaganna á sjóðinn og leggur til að fjármunum sjóðsins verði skipt niður á milli landshluta í hlutfalli við framleiðslumagn fyrra árs og fjármagninu dreift síðan til sveitarfélaga þar sem sjókvíaeldi er stundað í viðkomandi landshluta í hlutfalli við fjölda starfsmanna í sjókvíaeldi í hverju sveitarfélagi.

Einungis sveitarfélög sem teljast sjókvíaeldisbyggðir í hverjum landshluta geta notið greiðslna úr fiskeldissjóði.

Á Vestfjörðum myndu Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og
Súðavíkurhreppur mynda sjókvíaeldisbyggð Vestfjarða í skilningi laganna. Með sama hætti myndu Múlaþing og Fjarðabyggð mynda „sjókvíaeldisbyggð“ á Austfjörðum. Samtals myndi því fjármagn sjóðsins deilast á sjö sveitarfélög.

Í núverandi fyrirkomulag geta átta sveitarfélög sótt um styrk úr sjóðnum, þau sjö sem að ofan eru upptalin og svo Strandabyggð.

Dreifing fjármagnsins milli sveitarfélaganna sjö yrði í hlutfalli við fjölda starfsmanna í sjókvíaeldi í hverju sveitarfélagi innan sjókvíaeldisbyggðar. Upplýsingar liggja fyrir hjá Hagstofu Íslands.

Ráðuneytið telur að með þessu fyrirkomulagi hafi ráðuneytið að nánast öllu leyti mætt umræddri gagnrýni
sveitarfélaganna.
Í fyrsta lagi munu fjármunir renna til þeirra landshluta þar sem sjókvíaeldi er stundað og skapa tekjurnar.
Í öðru lagi munu fjármunir renna til sveitarfélaga í hlutfalli við fjölda starfsmanna starfandi í sjókvíaeldi í viðkomandi sjókvíaeldisbyggð. Það þýðir að fjármunir munu renna til sveitarfélaga í samræmi við þörf á innviðauppbygginu.
Í þriðja lagi fæst aukinn fyrirsjáanleiki, þ.e. sveitarfélög með starfsfólk í sjókvíaeldi í sveitarfélaginu geta gert áætlanir um framtíðartekjur. Tekjurnar eru ekki eins breytilegar því öll sveitarfélög sem eru með
starfandi fólk munu fá tekjur árlega.
Í fjórða lagi þá geta sveitarfélög ráðstafað fjármunum á þann hátt sem að þau kjósa. Sveitarfélögum er
treystandi til að meta hvernig fjármunum er best varið segir í greinargerð Matvælaráðuneytisins til sveitarfélaganna.

Reiknað er til skýringar hvernig útdeiling á fé sjóðsins árið 2022 hefði orðið ef þessum reglum hefði verið beitt.

Heildarframleiðsla í sjókvíaeldi var það ár 44.000 tonn, sem skiptist þannig að 32% var á Austfjörðum og 68% á Vestfjörðum. Úthlutunarfé Fiskeldissjóðs var 247.690.000 kr.

Skipting fjárins milli sveitarfélaganna hefði orðið þessi:

DEILA