Orkusjóður: fjórir styrkir að fjárhæð 126 m.kr. til verkefna á Vestfjörðum

Nýr fóðurprammi Arnarlax, Svanborg, var til sýnis í sumar.

Tilkynnt var í gær um úthlutun úr Orkusjóði. Alls fengu 58 verkefni styrki samtals að fjárhæð 918 m.kr. Þar af voru fjórir styrkir til verkefna á Vestfjarða að fjárhæð 126 m.kr. eða nærri 14% af heildarstyrkfjárhæðinni.

Hæstan styrk fékk Arnarlax hf 96.182.000 krónur í tækjabúnað sem nýtir endurnýjanlega orku í stað olíu í hybrid vinnubát. Gauti Geirsson f.h. Háafells ehf fékk 5 m. kr. styrk til sama vegna hybrid fóðurpramma.

Orkubú Vestfjarða ohf fékk 16.176.140 kr. styrk til hraðhleðslustöðva á Vestfjörðum og loks fékk Ísorka 9.471.000 kr styrk til hraðhleðslustöðvar í Geiradal.

Flokkun styrkjanna 58 er þannig að fjórir styrkir voru til framleiðslu endurnýjanlegs endsneytis samtals 76,4 m.kr. Til þess að styrkja innviði fyrir orkuskipti voru veittar 273 m.kr. í 25 styrki og 29 styrkir að upphæð 564 m.kr. fóru til þess að koma upp tækjabúnaði sem nýtir endurnýjanlega orku í stað olíu.

Hæsti einstaki styrkurinn var til Ísfélags Vestmannaeyja hf til kaupa á rafskautskatli 109.880.000 kr. Styrkurinn til Arnarlax var þriðji hæsti styrkurinn.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra flutti ávarp og Haraldur Benediktsson, stjórnarformaður Orkusjóðs, kynnti úthlutun sjóðsins.

DEILA