Opið  bréf til Tómasar Guðbjartssonar læknis: Bunandi lækur og barka Tómas

Ágæti kollega Tómas, ég tel mig tala fyrir munn fjölda Vestfirðinga þegar ég bið þig um að láta af þeirri áráttu, að tala niður Vestfirðinga, og vilja þínum til að halda Vestfjörðum fjarri framþróun og lífsviðurværi til jafns við aðra landshluta. Ég veit að það er grunsemd margra, ég deili einnig þeirri skoðun, að skrif þín gegn orkuöflun á Vestfjörðum byggir fyrst og síðast á eigin þörf til að vera í sviðsljósinu, ekki bara á umhyggju þinni fyrir lífi og náttúru. Þeir eru margir kollegar okkar sem standa þér framar í starfi sínu sem læknar, en hafa aldrei reynt að guma af verkum sínum eins og þú hefur gert!

Við Vestfirðingar erum stoltir af uppruna okkar, höfum yrkt landið eins og framast er hægt og notað þær náttúruauðlindir sem okkur eru næstar. Ég leyfi mér að fullyrða að undirlendi til „akuryrkju“ er hvergi á Íslandi minna en á Vestfjörðum. Því voru og er möguleikum til landbúnaðar þröngar skorður settar. Nálægð okkar við gjöful fiskimið, sem m.a. urðu til fyrir tilstilli Þuríðar sundafyllis og við nýttum okkur til framdráttar, komu í veg fyrir að hungurvofan sótti Vestfirði sjaldnar heim en aðra landshluta!  

Það verður að teljast undarleg árátta sumra, nú á tímum 4. Iðnbyltingar, að vilja halda Vestfjörðum utan hennar. Það vita allir hugsandi, konur og menn, að til þess að geta haldið í við hraða framþróun og nýsköpun þarf orku og góðar samgöngur. Úrtölufólk, eins og þú Tómas, hefur barist ötulega gegn því að slíkt geti raungerst á Vestfjörðum. Óþarft er að nefna dæmi þess, þau eru öllum í fersku minni.

Vestfirðir hafa fætt og alið af sér marga snillinga, sem hafa lagt lóð sín á vogaskálar t.d. stjórnmála, viðskipta, iðntækniþróunar og nýsköpunar, nýjasta dæmið er Kerecis. Listinn gæti verið miklu lengri en þetta verður að duga að sinni.

Ég bið þig þess lengstra orða kollega Tómas að láta af þessari áráttu þinni að tala Vestfirði niður.

Með vinsemd

Þorsteinn Jóhannesson,  borinn og barnfæddur Ísfirðingur, skurðlæknir fyrrverandi yfir- og forstöðulæknir á HVEST til 27 ára.

Eftirlaunaþegi, náttúruunnandi og raforkuframleiðandi.

DEILA