Góðar gjafir þegar lyklaskipti fóru fram í Blábankanum

Lyklaskipti fóru fram í Blábankanum í síðustu viku, þegar Birta Bjargardóttir lét af störfum og Gunnar Ólafsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Djúpsins í Bolungarvík, tók við.

Af því tilefni var haldið opið hús í Blábankanum til að gefa bæjarbúum tækifæri til að kveðja Birtu og bjóða Gunnar velkominn.

Meðal gesta var Einar Mikael Sverrisson sem gerði sér sérstaka ferð frá Patreksfirði til að afhenda Birtu og Gunnari gjafir.

Einar er mikill hugmyndasmiður og áhugamaður um þrívíddarprentun og galdraði hann fram eftirlíkingu af Dúa, leikfangabílnum fræga frá Þingeyri, sem Birta fékk að kveðjugjöf með einkanúmeri og skoðunarvottorði. Þar sá Einar sér leik á borði því Birta þarf að sjálfsögðu að koma reglulega vestur með bílinn í skoðun.

Gunnar fékk hins vegar fallegan lykil í forláta öskju, einnig prentaðri með þrívíddartækni, en lykillinn sá er mögulega þeim töfrum gæddur að opna allar dyr sem þarf þegar starf Gunnars í Blábankanum krefst þess.

Gjafirnar frá Einari Mikael vöktu mikla athygli og hreyfðu við æskuminningum þeirra sem áttu alvöru Dúabíl hér áður fyrr þegar Leikfangasmiðjan Alda stóð í blóma.

DEILA