Óbyggðanefnd: kröfur ríkisins fram úr hófi

Eins sjá má á bláu línunum gerði ríkið kröfu um að Reykjarfjörður og Þaralátursfjörður yrði dæmd þjóðlenda allt til sjávar.

Óbyggðanefnd gefur kröfum ríkisins um þjóðlendu víða á Vestfjörðum ekki háa einkunn og snuprar lögmenn ríkisins í úrskurði sínum frá 30. ágúst sl. í átta málum í fjórðungnum.

Ríkið setti fram víða þann skilning að fjallsbrúnir þýddu ekki þar sem vatnaskil væru heldur mynduðu fjallsbrúnir sýnileg skil í landslagi réðu merkjum milli eignarlanda og gerðu það að verkum að eignarlönd næðu ekki saman og því væri þjóðlenda milli þeirra. Þessi skilningur skýrir þá kröfu ríkisins að víða yfir tiltekinni hæðalínu á Vestfjörðum væri um þjóðlendu að ræða.

Um þetta segir Óbyggðanefnd í úrskurði sínum að kröfugerð íslenska ríkisins í Ísafjarðarsýslum gangi í
veigamiklum atriðum gegn fyrri réttarframkvæmd á sviði þjóðlendumála. Lýsingar á staðháttum í Ísafjarðarsýslum séu þannig að jarðir nái saman.

Þá hafi ríkið ekki nema að litlu leyti dregið úr kröfum sínum undir rekstri málanna, „þrátt fyrir gögn
sem hafa komið fram og gefið tilefni til þess, sáttaumleitanir óbyggðanefndar og ítrekaðar ábendingar nefndarinnar til lögmanna íslenska ríkisins um að endurmeta kröfurnar með hliðsjón af framangreindum atriðum. Með þessu hefur fjöldi jarðeigenda að ófyrirsynju þurft að sæta málsmeðferð sem hefur reynst tímafrek og þannig íþyngjandi fyrir viðkomandi málsaðila.“

kröfur ríkisins frá upphafi fram úr hófi

Þá gerði ríkið kröfu um þjóðlendu allt niður að sjávarmáli í Reykjarfirði og Sæbóli. Um þá kröfu segir í úrskurði Óbyggðanefndar að kröfur íslenska ríkisins til lands Reykjarfjarðar hafi frá upphafi gengið fram úr
hófi miðað við allt sem fyrir lá þegar kröfunum var lýst. Sannarlega sé um jarðir að ræða og í vettvangsferð 25. ágúst 2021 hafi glöggt sést að niðri á láglendinu í Reykjarfirði eru allmörg mannvirki, þ.e. ýmis hús, flugbraut og sundlaug, og ljóst þykir að þessi mannvirki séu mörg hver í notkun. „Þessi atriði staðfesta að jörðin Reykjarfjörður er enn nýtt með ýmsum hætti, a.m.k. sá hluti hennar sem er láglendastur og liggur næst sjó, þótt ekki sé lengur föst búseta á jörðinni“ segir Óbyggðanefnd.

Þrátt fyrir þetta var kröfum ríkisins til Reykjarfjarðar haldið til streitu og niðurstaða Óbyggðanefndar er að „Kröfur íslenska ríkisins til lands Reykjarfjarðar gengu þannig frá upphafi fram úr hófi miðað við allt sem fyrir lá þegar kröfunum var lýst.“

Undir rekstri málsins beindi óbyggðanefnd því raunar sérstaklega til lögmanna íslenska ríkisins að taka til skoðunar kröfugerð ríkisins í Reykjarfirði. Engar breytingar voru þó gerðar á kröfugerðinni heldur var þeim að þessu leyti haldið að fullu til streitu, sbr. m.a. fyrrnefnt bréf frá 24. janúar 2023.

Um þetta segir Óbyggðanefnd:

„Þessi tilhögun kröfugerðar ríkisins var ekki studd viðhlítandi röksemdum og var mun meira íþyngjandi gagnvart gagnaðilum þess en efni stóðu til. Verklag íslenska ríkisins er að þessu leyti verulega
aðfinnsluvert.“

Var kröfum ríkisins hafnað bæði varðar skilning á fjallsbrúnum og þjóðlendu til sjávar í Reykjarfirði.

DEILA