Endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar: skýrsla starfshópa ekki kynnt Samráðsnefndinni

Í gærkvöldi sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu fulltrúar Landssambands smábátaeigenda (LS),

Strandveiðifélags Íslands (STÍ)  og Samtaka fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ). Tilefnið er útkoma skýrslu frá fjórum starfshópum um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Forystumenn þessara félagasamtaka hafna því að samtökin séu bendluð við útkomuna á starfinu Auðlindin okkar og segja að Samráðsnefndin, sem þeir eiga sæti í hafi ekki fengið skýrsluna til umfjöllunar og að ekki hafi verið leitað eftir athugasemdum.

Fréttatilkynningin í heild:

Í maí 2022 skipaði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra fjóra starfshópa til að greina áskoranir og tækifæri í sjávarútvegi og tengdum greinum. 

Að auki skipaði ráðherra 27 manna „Samráðsnefnd“ sem við undirritaðir settumst í og töldum að gegndi því hlutverki að taka við tillögum og niðurstöðum starfshópanna til frekari úrvinnslu. 

Við ákváðum að þiggja setu í „Samráðsnefndinni“ í þeirri von að á okkur yrði hlustað og áherslur okkar myndu koma fram í skýrslu starfshópanna.  Nú, u.þ.b. 16 mánuðum síðar blasir við skýrsla frá starfshópum nefndarinnar.  Skýrsla sem ekki hefur verið kynnt í Samráðsnefndinni hvað þá að leitað hafi verið eftir athugasemdum nefndarinnar við hana.  Vinnubrögðin eru forkastanleg og kallar fram spurninguna hvert var hlutverk Samráðsnefndarinnar þar sem skýrslan sem kynnt hefur verið er ekki hennar verk. 

Kynningin 29. ágúst sl endurspeglaði þetta fullkomlega.

Undirritaðir, f.h. þeirra félagasamtaka sem við erum í forystu fyrir lýsum því hér með yfir að við höfnum því alfarið að okkar samtök séu bendluð við niðurstöður „Auðlindarinnar okkar“.

Reykjavík 1. september 2023

 Arnar Atlason                                    formaður SFÚ

Arthur Bogason                                 formaður LS

Kjartan Páll Sveinsson                      formaður STÍ

DEILA