Fyrirstöðugarður við Norðurtanga: tekið jákvætt í samkeppni um áningarstað

Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.
Frá framkvæmdum við Norðurtanga. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Tillaga Gylfa Ólafssonar, formanns bæjarráðs um að efna til samkeppni um áningarstað við enda fyrirstöðugarðs við Norðurtanga, sem verið er að gera, fær frekar jákvæðar undirtektir.

Lagt var til að keppnin verði haldin öðru hvoru megin við áramótin og gert ráð fyrir keppninni og framkvæmdum í fjárhagsáætlunargerð fyrir 2024 og 25.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók á fundi sínum 17. júlí vel í hugmyndina og vísaði henni til vísaði tillögunni til umsagnar hjá fjórum nefndum bæjarins, menningarmálanefnd, umhverfis- og framkvæmdanefnd, skipulags- og mannvirkjanefnd og hafnarstjórn.

Í kjölfar fenginna umsagna bæjarstjóri útfæra hugmyndasamkeppni og leggja fram áætlun um kostnað, forsendur, tímasetningar og önnur skipulagsatriði fyrir bæjarráð.

Skipulags- og mannvirkjanefnd hélt fund 10. ágúst og bókað var að nefndin tekur jákvætt í tillöguna en áréttað var að taka verði tillit til þess að ekki hefur verið tekið ákvörðun um gerð deiliskipulags á svæðinu. Nefndin bendir á að útfærsla við hönnun áningarstaðar verði byggt á mögulegum deiliskipulagsskilmálum og því verður hugmyndin unnin samhliða gerð nýs deiliskipulags.

Hafnarstjórn ræddi tillöguna 9. ágúst og bókað var að hún tæki jákvætt í erindið.

Umhverfis- og framkvæmdanefnd ræddi málið 30. ágúst og leggur nefndin áherslu á að áningarstaðurinn verði aðgengilegur fyrir íbúa og gesti bæjarfélagsins og að áningarstaðurinn taki mið af umhverfi svæðisins.

Fjórða nefndin, menningarmálanefnd hefur ekki haldið fund síðan 24. maí.

Í minnisblaði formanns bæjarráðs segir um tillöguna:

„Fyrirstöðugarðurinn mun koma á miðja þessa leið og setja svip á umhverfið. Þaðan verður útsýni til allra átta. Garðurinn er opinn fyrir ríkjandi norðanáttinni og er hannaður með það í huga að aðgengi verði á honum út á enda, en að öðru leyti hefur markmið með hönnun hans verið einskorðað við að hefta sandburð.
Það er því upplagt að setja áningarstað á enda garðsins. Þar má hugsa sér listaverk eða minnismerki auk bekkja eða annarra götugagna. Skoða má hvort aðgengi að fjörunni megi tvinna við áningarstaðinn, eftir atvikum í tengslum við sjósund. Leitast verði við að líta til sögunnar, en við garðinn var bryggja og þar er enn uppsátur, en þó er ekki skilyrði að listaverkið hafi skírskotun í sjósókn. Huga þarf að lýsingu, aðgengi, reglum um siglingaljós og sjónræn áhrif á næstu nágranna í Fjarðarstræti 2–6.“

DEILA