Forsetinn á Patreksfirði

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, kemur í heimsókn á sunnanverða Vestfirði 1.-2. september.

Forsetinn byrjar heimsókn sína á að taka þátt í aðalfundi Skógræktarfélags Íslands sem haldinn er á Patreksfirði þessa helgina. Guðni heimsækir meðal annars Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í tilefni af 40 ára afmæli safnsins og fer í heimsókn í Selárdal að skoða verk listamannsins Samúels Jónssonar.

Forsetahlaupið verður síðan haldið á Patreksfirði á laugardagsmorgun. Er þetta í annað skipti sem forsetahlaupið er haldið, en það fyrst var haldið á Álftanesi í fyrra.  

Eins og við munum eflaust flest eftir ætlaði Guðni Th. að vera viðstaddur minningarathöfn vegna krapaflóðanna 23. janúar sl., þegar minnst var þeirra sem létust í krapaflóðinu 40 árum fyrr. Vegna útkalls Landhelgisgæslunnar urðu breytingar á fyrirætlunum forsetans.

Í dagskrá forseta er áætluð lítil og lágstemmd athöfn við minnisvarðann um þau sem létust í krapaflóðinu, kveikt verður á kertum og forsetinn mun segja nokkur orð. Athöfnin verður haldin kl. 18:00 í dag föstudag.

DEILA