Aðalfundur Skógræktarfélags Íslands 2023 verður haldinn á Patreksfirði dagana 1-3. september og eru þrjú skógræktarfélög sem eru sameiginlega gestgjafar fundarins að þessu sinni – Skógræktarfélag Bíldudals, Skógræktarfélag Patreksfjarðar og Skógræktarfélag Tálknafjarðar.
Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson mun flytja ávarp við setningu fundarins, þar sem honum verður fært fyrsta eintak af nýrri bók – Frændur fagna skógi – er fjallar um skógartengd samskipti Norðmanna og Íslendinga. Af því tilefni mun Tønnes Svanes, sendifulltrúi Norska sendiráðsins einnig flytja ávarp.
Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa verða flutt fjölbreytt fræðsluerindi og farið í vettvangsferðir til að skoða skóglendi og annað áhugavert á svæðinu. Fræðsluerindin munu meðal annars fjalla um framgang birkis á Vestfjörðum, plöntusteingervinga í Surtarbrandsgili, skógrækt í Vestur-Botni og merkistré í Barðastrandarsýslu.
Hápunktur fundarins er hátíðarkvöldverður á laugardagskvöld þar sem skógræktarfólk verður heiðrað fyrir framlag sitt til skógræktar og dans stiginn fram á nótt.
Dagskrá aðalfundar, starfsskýrsla Skógræktarfélags Íslands og aðrar upplýsingar verða aðgengilegar á heimasíðu Skógræktarfélags Íslands:
Hægt verður að fylgjast með gangi fundarins á Facebook- og Instagram síðum Skógræktarfélags Íslands:
https://www.facebook.com/skograektarfelag
https://www.instagram.com/skograektarfelagislands/