Óbyggðanefnd hafnaði kröfum ríkisins að miklu leyti

Óbyggðanefnd kvað í gær upp úrskurð í þjóðlendumálum í Ísafjarðarsýslum, á svonefndu svæði 10B. Kröfur fjármála- og efnahagsráðherra, f.h. ríkisins, um þjóðlendur í Ísafjarðarsýslum tóku alls til 45 skilgreindra svæða og fjallað var um þær í átta málum.

Á móti bárust 159 kröfulýsingar landeigenda vegna um 190 jarða eða svæða. Að auki kannaði óbyggðanefnd heimildir um merki ýmissa nærliggjandi jarða og svæða og að þeim meðtöldum voru merki meira en 250 jarða eða svæða til skoðunar við rannsókn málanna.

Niðurstaða óbyggðanefndar var að hlutar af níu þeirra svæða sem íslenska ríkið gerði kröfu til væru þjóðlendur en öðrum kröfum ríkisins var hafnað. Þau svæði sem eru þjóðlendur samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar eru:

  • Hestfjarðaralmenningur
  • Skötufjarðaralmenningur
  • Almenningur í Ísafirði
  • Drangajökull, þ.e. sá hluti hans sem er innan Ísafjarðarsýslna sé þjóðlenda, en sá hluti jökulsins sem er í Strandasýslu var áður úrskurðaður þjóðlenda við málsmeðferð þar
  • Grænahlíð við Ísafjarðardjúp
  • Almenningar vestari á Hornströndum
  • Hælavíkurbjarg á Hornströndum
  • Hornbjarg á Hornströndum

Hluti Almenninga eystri á Austurströndum.

Ágreiningur milli íslenska ríkisins og landeigenda í málum nr. 1–8/2021 sneri í mörgum tilvikum að því hvort efstu hlutar fjallar væru þjóðlendur, þ.e. svæði utan eignarlanda, eða hvort eignarlönd jarða beggja vegna næðu saman uppi á fjöllum. Íslenska ríkið byggði að miklu leyti á því að fjalls­brúnir sem mynda skörp skil í landslagi, t.d. við frambrún kletta og fjalla, réðu merkjum eignarlanda gagnvart þjóðlendum.

Komst nefndin að þeirri niðurstöðu að kröfugerð íslenska ríkisins í Ísafjarðarsýslum gengi í veigamiklum atriðum gegn fyrri réttarframkvæmd á sviði þjóðlendumála.

Niðurstöður nefndarinnar í einstökum málum eru sem hér segir:

Mál nr. 1/2021, Fjalllendi norðan Geirþjófsfjarðar

  • Hafnað er kröfu íslenska ríkisins um að á svæðinu sé þjóðlenda. Kröfur ríkisins þar tóku alfarið til efstu hluta fjalla.

Mál nr. 2/2021, Fjalllendi milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar

  • Hafnað er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur. Kröfur ríkisins þar tóku alfarið til efstu hluta fjalla.

Mál nr. 3/2021, Fjalllendi milli Dýrafjarðar og Önundarfjarðar auk Nesdals

  • Hafnað er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur. Kröfur ríkisins þar tóku að miklu leyti til efstu hluta fjalla en einnig gerði ríkið kröfu um að Nesdalur og nálæg svæði við Ingjaldssand væru þjóðlendur.

Mál nr. 4/2021, Fjalllendi milli Ísafjarðardjúps, Álftafjarðar og Önundarfjarðar, auk Stigahlíðar

  • Hafnað er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur. Kröfur ríkisins þar tóku að mestu leyti til efstu hluta fjalla en einnig til Stigahlíðar við Ísafjarðardjúp.

Mál nr. 5/2021, Fjalllendi við innanverðan Arnarfjörð og Dýrafjörð ásamt landsvæðum sunnan Ísafjarðardjúps

  • Fallist er á hluta krafna íslenska ríkisins, þ.e. að eftirfarandi svæði séu þjóðlendur:
    • Hestfjarðaralmenningur
    • Skötufjarðaralmenningur
    • Almenningur í Ísafirði
  • Að öðru leyti er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur hafnað. Þær kröfur sem hafnað var tóku að hluta til fjalllendis en einnig tóku þær til landsvæða í Hestfirði, Skötufirði og Ísafirði, aðliggjandi áðurnefndum almenningum sem úrskurðaðir voru þjóð­lendur.

Mál nr. 6/2021, Fjalllendi upp af Langadalsströnd

  • Hafnað er kröfu íslenska ríkisins um að á svæðinu sé þjóðlenda. Krafa ríkisins þar tók til heiðalands og fjalllendis ofan Langadalsstrandar.

Mál nr. 7/2021, Drangajökull og landsvæði umhverfis hann

  • Fallist er á hluta krafna íslenska ríkisins, þ.e. að sá hluti Drangajökuls sem er innan Ísa­fjarðar­sýslna sé þjóðlenda.
  • Að öðru leyti er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur hafnað. Þær tóku að hluta til fjalllendis, líkt og í ýmsum áðurnefndum málum, en einnig tóku þær til tiltölulega láglends svæðis innst í Kaldalóni og í sunnanverðum botni Leirufjarðar og enn fremur alls lands í Þaralátursfirði og Reykjarfirði nyrðri á Ströndum.

Mál nr. 8/2021, Sléttuhreppur og norðanverður Grunnavíkurhreppur

  • Fallist er á hluta krafna íslenska ríkisins, þ.e. að eftirfarandi svæði séu þjóðlendur:
    • Grænahlíð við Ísafjarðardjúp
    • Almenningar vestari á Hornströndum
    • Hælavíkurbjarg á Hornströndum
    • Hornbjarg á Hornströndum
    • Hluti Almenninga eystri á Austurströndum
  • Að öðru leyti er kröfum íslenska ríkisins um að á svæðinu séu þjóðlendur hafnað. Þær kröfur sem hafnað var tóku að mestu til fjalllendis en einnig m.a. til láglendis í Hesteyrar­firði.
  • Úrskurðina í heild ásamt kortum er að finna á vefsíðu nefndarinnar, undir Úrskurðir og dómar.
DEILA