Hnífsdalur: iðnaðarstarfsemi mótmælt

Bakkaskjól. Mynd: Ísafjarðarbær.

Þrír íbúar í Hnífsdal fyrir hönd íbúa hafa sent bæjarráði Ísafjarðarbæjar bréf og mótmæla því að bæjarráð „leyfi sér að setja iðnaðarstarfsemi á lóð“ leikskólans Bakkaskjól en húsnæðið hefur verið selt Magnúsi Alfreðssyni. Segir í bréfinu að kaupandi hafi hafið undirbúing að því að flytja tæki og efni á staðinn til að hafa þar trésmíðaverkstæði á lóðinni og í húsinu og haft er eftir kaupanda að engin kvöð sé um starfsemina í kaupsamningnum.

Þá segir að ekkert samráð hafi verið haft við íbúana við þessa ákvörðun, ekki hafi farið fram grenndarkynning um breytingar og að íbúarnir munu ekki samþykkja þessa starfsemi og skorað er á bæjarráð að afturkalla þesssa ákvörðun.

Í minnisblaði sviðsstjóra umhverfis- og eignasviðs sem lagt var fyrir bæjarráð segir að óljóst sé hvað nýr eigandi ætlar sér fyrir með húsnæðið. „Samt sem hefur orðrómur verið þess efnis að nýr eigandi ætli sér að starfrækja verkstæði í húsnæðinu. Ef svo er þá er um að ræða starfsleyfisskylda starfsemi“ .

Ennfremur segir í minnisblaðinu að „miðað við þær forsendur sem settar eru fram í aðalskipulagi, þá samræmist veiting starfsleyfis vegna smíðaverkstæðis ekki núgildandi skipulagsákvæðum, jafnframt er óljóst hvort slíkt yrði samþykkt af hálfu bæjaryfirvalda.“

Bæjarráðið áréttaði að kaupandi Bakkavegar 19 hafi verið upplýstur um stöðu skipulags á svæðinu við sölu eignarinnar og að sala fasteigna er ekki háð grenndarkynningu. Þá sé Bakkavegur 19 á landnotkunarreit Þ22 samkvæmt aðalskipulagi, sem er þjónustusvæði. Eigi að vera önnur starfsemi í húsinu þurfi að gera breytingu á aðalskipulagi m.t.t. landnotkunarflokks, í samræmi við þá starfsemi sem er ætlað að vera í húsnæðinu.

Og ætli eigandi húsnæðis að starfrækja verkstæði í húsinu þurfi jafnframt að liggja fyrir starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd.

DEILA