Vel heppnað Sæunnarsund að baki 

Meginmarkmið Sæunnarsunds árið 2023 hefur náðst, það lá fyrir um kl. 12:00 á hádegi að lokinni talningu upp úr sjónum að enginn hafði drukknað og eðlilega er það fyrir mestu. Þetta fimmta heiðurssund Sæunnar tókst með miklum ágætum þrátt fyrir mjög misvísandi veðurspár alla  vikuna. Vindhæð og úrkoma var sífellt að breytast en þegar að stóru stundinni kom var veðrið ásættanlegt, meiri vindur og þyngra skýjafar en við eigum að venjast á þessum árlegu hátíðarstundum en flestir létu sig hafa það og skelltu sér til sunds.

 Í hópnum voru nokkrir nýliðar en það eru nokkrir fastir gestir Sæunnar sem alltaf mæta og synda með miklum “bravúr” eins sagt var hér í eina tíð. 

Alls hafa 76 einstaklingar lagt af stað í Sæunnarssund og margir hafa synt nokkrum sinnum því samtals eru “sundin” orðin 104 og hefur 90 þeirra verið lokið með 100% árangri en 14 hafa fengið aðstoð björgunarsveita. Engum hefur orðið meint af volkinu svo vitað sé. 

Að þessu sinni fóru fjórtán hetjur af stað og syntu út í strauminn, sem var meiri en reiknað var með. Tólf komu að landi fyrir eigin vélarafli. Eina hetjuna greip villa og skeytti engu þó bátsverjar í nágrenninu reyndu að beina henni á rétta braut og eftir rúmlega 4 km sund kastaði hún inn hanskanum enda ennþá langt í langt og var kippt snarlega upp í björgunarfley sem hafði á henni vökul augu. Nú er rétt að geta þess að það eru 2,5 km yfir fjörðinn svo þessi mikla sundkona hefði verið komin langleiðina til baka aftur ef hún hefði valið stystu  leið og synt jafnlangt. 

Sjórunn var 10 –11° heitur en talsverður straumur svo afrek dagsins var í raun og sannleik sannkallað afrek.  

Sæunnarsundið er alltaf haldið síðasta laugardag í ágúst sem að ári ber upp á 31. og undirbúningur fyrir það hefst strax.  

Sundhetjum, björgunarsveitum og öllum sem að sundinu komu er þakkað af hjartans list fyrir sitt framlag. 

Myndir: Bryndís Sigurðardóttir.

DEILA