Suðureyri: gatagerðargjöld felld niður af stækkun

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að fella niður gatnagerðargjöld að fjárhæð kr. 763.292. af stækkun íbúðarhússins Aðalgata 21 á Suðureyri. Húsið er byggt 1912 og er áformað að að byggja viðbyggingu og stakstæða geymslu, innan lóðar og byggingarreitar.

Þegar hafa verið felld niður gatnagerðargjöld vegna nýframkvæmda á lóðum við Aðalgötu 17 og 19 Suðureyri sem standa við tilbúna götu.

Sviðsstjóri segir í minnisblaði til bæjarráðs að lóðin við Aðalgötu 21 ætti í raun að falla undir sömu ákvæði og aðrar lóðir við Aðalgötu, þar sem ekki er farið í frekari gatnagerð vegna framkvæmda og vegna þeirra fordæma sem liggja fyrir.

Vísað er til samþykktar bæjarstjórnar frá október sl. um sérstaka niðurfellingu gatnagerðargjalda vegna lóða við þegar byggðar götur í Ísafjarðarbæ, sem ekki þarf að leggja í frekari kostnað við gatnagerð og eru auglýstar eru á vef Ísafjarðarbæjar.

Bæjarráð áréttaði að ákvörðun bæjarstjórnar um niðurfellingu gatnagerðargjalda við þegar byggðar götur í sveitarfélaginu renni út 31. desember 2023.

DEILA