Bolungavík: 22 nýjar lóðir Lundahverfis eru lausar til úthlutunar

Umhverfismálaráð og Bolungarvíkurkaupstaður hafa samþykkt að auglýsa nýjar lóðir í Lundahverfi í Bolungavík, lausar til úthlutunar. Um er að ræða 22 lóðir fyrir einbýlishús, par/raðhús og fjölbýlishús við Víðilund 1 og 3, Grenilund 1,2,3 og 4, Furulund 1,2 og 4, Birkilund 1,2,3 og 4, Brekkulund 1,3 og 5, Völusteinsstræti 37, 38, 40 og 41 og Höfðastíg 13 og 15b.

Þrjár lóðir eru ekki til úthlutunar að þessu sinni en það eru lóðirnar við Furulund 3 og Birkilund 5 og 6.

Umsóknarfrestur er til 20. september 2023.

Lundahverfi er nafnið á því þar sem gatan Brekkulundur verður aðalgatan. Út frá henni verða fjórar götur, Birkilundur, Furulundur, Grenilundur og Víðilundur. Nafngiftin vísar í Bernódusarlund Skógræktarfélags Bolungavíkur. Svæðið er um 9 hektarar að stærð.

Bæjarstjórn Bolungavíkur afgreiddi deiliskipulag að nýju Lundahverfi og frístundahverfi við Hólsá á fundi sínum í janúar síðastliðnum. Var deiliskipulagið sent til Skipulagsstofnunar til yfirferðar og í framhaldi birt auglýsing í B-deild stjórnartíðinda um gildistöku deiliskipulagssins.

DEILA