VG kynnir sér virkjunaráform í Vatnsfirði

Forsætisráðherra og Matvælaráðherra.

Þingflokkur Vinstri grænna var í Vatnsfirði í Barðarstrandarsýslu í gær og kynnti sér aðstæður í Vatnsdalnum. Tildrög heimsóknarinnar eru þau að mæðgurnar Elva Björg Einarsdóttir og Bríel Böðvarsdóttir frá Seftjörn gengu á fund Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og lýstu því að þær vildu halda friðun Vatnsfjarðar til hins ýtrasta, en Orkubú Vestfjarða hefur farið fram á að friðunarskilmálum svæðisins verði aflétt að hluta svo unnt verði að framkvæmda umhverfismat fyrir 20-30 MW virkjun.

Varð þá niðurstaðan að þingflokkur Vinstri grænna kæmi í vettvangsferð. Með í för var Edda Kristín Eiríksdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun. Elva Björg segir að við vorum „sammála um að mestu skipti að vernda þessa heild sem Vatnsfjörðurinn er.“

Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi var inntur eftir því hvort Vinstri grænir væru andvígir virkjunarhugmyndum. Hann svaraði því til að ekkert slíkt lægi fyrir.

„Fyrir mitt leyti vil ég skoða með okkar fólki fyrir vestan hvaða kostir eru í boði fyrir Vestfirðinga og hlusta sérstaklega á hvað þau vilja. Því það þarf lausnir. Þetta er kostur sem hefur verið nefndur. Ég vil skoða það með opnum hug.“

Hópurinn í kynnisferðinni í gær.

Myndir: Elva Björg Einarsdóttir.

DEILA