Ísafjarðarbær: auglýst eftir rekstraraðilum fyrir líkamsrækt

Frá undirritun samningsins við Ísófit.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt að auglýst verði eftir rekstraraðilum „að þeirri þjónustu sem sveitarfélagið nýtir á Ísafirði fyrir líkamsrækt fyrir hina ýmsu markhópa, auk aðstöðu og umsjón tækjabúnaðar Ísafjarðarbæjar.“

Tilefnið er að samningur við Ísófit sem gerður var haustið 2020 rennur út í lok september. Í minnisblaði bæjarstjóra til bæjarráðs segir að samstarfið við Ísófit ehf. hafi gengið vel, en mikilvægt sé að auglýst verði með opnum hætti eftir þjónustuaðilum.

Þá segir að engar ákvarðanir hafi verið teknar um framtíðarrekstur Ísafjarðarbæjar á líkamsrækt á Ísafirði, s.s. í íþróttamannvirkjunum á Torfnesi eða Austurvegi, en á síðustu misserum hafi verið umræður um framtíðarskipulag á Torfnesi og gerð nýs deiliskipulags fyrir svæðið.

„Mikilvægt er því á þessum tímapunkti að ákveða næstu skref varðandi líkamsrækt á Ísafirði, en mikilvægt er að þjónustan sé til staðar, ef horft er til lýðheilsusjónarmiða og vilja íbúa.“

Samningurinn við Ísófit var til þriggja ára og greiðir bæjarsjóður 420 þúsund krónur á mánuði í styrk til Ísófit. Samningurinn var samþykktur í bæjarstjórn með fimm atkvæðum gegn þremur. Fulltrúar meirihlutans, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, veittu málinu brautargengi og þrír fulltrúar Í listans greiddu atkvæði gegn.

Í harðorðri bókun Í listans sem lögð var fram í bæjarstjórn er málsmeðferð gagnrýnd og stefnuleysi meirihlutans í málinu auk þess sem gagnrýnt er að Þrúðheimar ehf hafi ekki staðið jafnfætis Ísófit ehf í viðræðum við bæinn um rekstur líkamsræktaraðstöðu.

Í júní 2022 úrskurðaði Innviðaráðherra styrkveitingu Ísafjarðarbæjar til Ísófit ehf ólögmæta. Segir í úrskurðinum að ákvörðun Ísafjarðarbæjar hafi ekki verið í samræmi við fyrirmæli stjórnsýslulaga um jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og lögmætisreglu.

Arna Lára Jónsdóttir, bæjarstjóri lýsti því yfir af því tilefni að samningurinn væri áfram í gildi.

DEILA