Rjúpnastofninn rannsakaður

Rjúpan er vinsælasta bráð íslenskra skotveiðimanna og er uppistaðan í veiðinni ungar frá sumrinu á undan.

Mælingar á viðkomu rjúpu eru því mikilvægar til að meta ástand stofnsins á komandi veiðitíma. að því er kemur fram á vef Náttúrufræðistofnunar.

Einu skipulögðu ungatalningar hjá rjúpu síðustu áratugi hafa verið á Vesturlandi og Norðausturlandi. Aukið átak var sett í ungatalningar sumarið 2023 og talið  í öllum landshlutum með aðstoð eigenda fuglahunda. Talningar sýna að viðkomubrestur var hjá rjúpum á Norðausturlandi (3,7 ungar á kvenfugl) og Austurlandi (4,1 ungi á kvenfugl).

Jafnframt var viðkoman frekar léleg á Norðvesturlandi (5,6 ungar á kvenfugl), en á Suðurlandi (6,8 ungar á kvenfugl), Vesturlandi (6,6 ungar á kvenfugl) og Vestfjörðum (6,7 ungar á kvenfugl) var viðkoman svipuð því sem verið hefur oftast síðasta áratuginn eða svo.

Líklegasta skýringin á lélegri viðkomu um norðan- og austanvert landið er kuldi samfara mikilli úrkomu í fyrri hluta júlí.

DEILA