Haftyrðlar á Ströndum

Hraktir haftyrðlar fundust víða um Strandir undir lok síðasta mánaðar er greint er frá á Strandir.is. Fundust þeir m.a. í Kollafirði, Steingrímsfirði og Bjarnarfirði. Haftyrðlar (Alle alle) eru ekki lengur varpfuglar við Ísland, en verptu í Grímsey, á Langanesi og e.t.v. í Kolbeinsey þar til í kringum 1900. Fuglinum fækkaði síðan mjög, vegna hlýnandi veðurfars að því talið er. Til skamms tíma verptu fáein pör í Grímsey, þar sem fuglinn var stranglega friðaður, en hann er nú alveg horfinn þaðan.

Haftyrðill er smæstur svartfugla og einn af minnstu sjófuglunum er segir í lýsingu Jóhanns Óla Hilmarssonar á fuglinum á vef Náttúruminjasafns Íslands. Hann er þybbinn, hálsstuttur og mjög kubbslegur, á stærð við stara. Vængirnir eru stuttir. Á sumrin er hann svartur að ofan, niður á bringu, og hvítur að neðan. Hvítar rákir eru um axlir. Á veturna verður hann hvítur á bringu, kverk og upp á vanga. Stuttur, keilulaga goggurinn er svartur eins og fæturnir, augu eru dökk.

Fyrrum vakti það furðu þegar haftyrðlar fundust á veturna, dauðir eða lifandi, og vissu menn ekki hvaðan þessi furðufugl var kominn. Talið var að þetta væri þjóðsagnafuglinn halkíon. Sem átti samkvæmt grískum þjóðsögum að verpa úti á rúmsjó. Haftyrðill var sagður fyrirboði um illviðri, en annars er lítið í þjóðtrúnni um fuglinn, fyrir utan söguna um halkíon.

annska@bb.is

DEILA