Ísafjarðarbær styrkir Lýðskólann á Flateyri

Nýju nemendagarðarnir á Flateyri eru glæislegir. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók fyrir í gær erindi frá Lýðskóla Flateyrar þar sem óskað var eftir samstarfi um fjármögnun skólagjalda og húsaleigu vegna a.m.k. einn nemanda við Lýðskólann á Flateyri, skólaárið 2023-2024.

Ákveðið var að veita styrk vegna skólagjalda og húsaleigu til eins nemanda til að sækja Lýðskólann á Flateyri veturinn 2023-2024, og var bæjarstjóra falið að vinna málið áfram.

Í erindi Lýðskólans kemur fram að á fyrsta starfsári skólans hafi verið gert viðlíka samkomulag við Bolungarvíkurkaupstað og hafi það gefist vel.

Skólagjöld fyrir hvora önn eru 350.000 kr. eða samtals 700.000 kr. fyrir skólaárið. Innifalið í skólagjöldum er morgunmatur sem og hádegismatur alla virka daga á meðan á skólastarf er í gangi (ekki í haust, vetrar, jóla eða páskafríi) og allt efni og afnot af sértækum búnaði sem þarf í námið.
Ef nemandi mætir vel og er með yfir 80% mætingu fæst 100.000 krónur endurgreiðsla af skólagjöldum.


Lýðskólinn rekur tvo nemendagarða. Sá eldri er með 12 herbergjum, sameiginlegum baðherbergjum, stofu og tveimur eldhúsum. Leiga á hverju einstaklingsherbergi er 60.000 kr.
Nýji nemendagarðurinn er með 14 stúdíóíbúðum. Hver íbúð er með ísskáp og sér baðherbergi. Stórt sameiginlegt eldhús/borðstofa er á jarðhæð. Leiga á stúdíóíbúð er 95.000 kr. Möguleiki er að tveir nánir einstaklingar geti deilt stúdíóíbúð. Á báðum nemendagörðum eru þvottahús með þvottavélum, snúrum og þurrkurum. Innifalið í leigu er rafmagn, hiti og internet. Auk þessa húsnæðis leigir skólinn íbúðir á Flateyri eftir þörfum.

DEILA