Lengjudeildin: Vestri upp í 4. sætið

Benedikt Warén skorar fyrra mark Vestra í gær.

Vestri gerði góða ferð í Breiðholtið í gær og vann Leiknir 2:1 í uppgjöri liðanna í 4. og 5. sæti og hafði með sigrinum sætaskipti við Leikni og tók af þeim fjórða sætið. Eftir 2:2 jafntefli við topplið Aftureldingar á Ísafirði í síðustu viku var erfiður útileikur við Leikni. Vestri átti góðan leik og voru Vestfirðingarnir betri aðilinn í leiknum. Var sigurinn verðskuldaður. Benedikt Warén skoraði á 69. mínútu. Leiknismenn jöfnuðu á 83. mínútu en því var svarað með marki á 85. mínútu sem markahrókurinn Vladimir Tufegdzic gerði.

Átjándu umferðinni lýkur í kvöld með tveimur leikjum en ljóst er að Vestri situr í 4. sæti eftir þessa umferð, en það gefur þátttökurétt í umspili um laust sæti í Bestu deildinni. Fjórar umferðir eru eftir af Lengjudeildinni og fær Vestri næst Fjölni í heimsókn en þeir sitja í 3. sæti deildarinnar.

Ekkert er öruggt ennþá um sæti í umspili og mörg lið geta enn náð sæti í því. Það verða liðin í 2. – 5. sæti sem munu fara í umspilið.

DEILA