Kvígindisdalur: gat á kví

Brunnbáturinn Novatrans í Bolungavíkurhöfn. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Í gær komu í ljós við athugun starfsmanna Arctic Fish tvö göt á kví nr 8 við Kvígindisdal í Patreksfirði. Götin eru ofarlega og lágu lóðrétt sitthvoru megin við svokallaða styrktarlínu, hvort um sig 20×30 cm. Búið er að loka götunum og er verið að skoða allar kvíar á svæðinu. Götin hafa verið tilkynnt til Fiskistofu og Matvælastofnun eins og reglur kveða á um og viðbragðsáætlanir hafa verið virkjaðar segir í tilkynningu fyrirtækisins sem send var fjölmiðlum.

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði í samtali við Bæjarins besta að athugað væri daglega um ástand kvínna. Í kvínni er fullvaxinn eldisfiskur og er byrjað að slátra upp úr henni og var síðast farið með fisk í vinnslu úr henni 8. ágúst. Slátrað er í Bolungavík.

Þrjú slysasleppingarnet voru lögð í gær sem verða dregin í dag með eftirlitsfólki frá Fiskistofu. Í kví númer átta eru 72.522 fiskar, meðalþyngd hvers þeirra er um 6 kg og vegur fjöldinn því samanlagt um 440 tonn.

Á þessu stigi er ekki vitað hvort einhver fiskur slapp úr kvínni eða hversu margir en rannsóknir á sleppifiskum hafa sýnt að fullvaxnir fiskar eru ólíklegari en yngri til að fara úr kvínni og að lífslíkur þeirra utan kvíar eru afar litlar þar sem fiskarnir eru illa færir um að bjarga sér. Þá minnka líkur á sleppingum ef götin eru ofarlega á kvínni.

-k

DEILA