Blúshátíð á Patreksfirði

Senn líður að tólftu Tónlistarhátíð Blús milli fjalls og fjöru á Patreksfirði, sem verður 25 og 26 ágúst n.k.  Hátíðin verður með breyttu sniði í ár þar sem stefnan er ekki bundin við blús eingöngu, heldur leitum við á önnur mið. Listamenn helgarinnar eru ekki af verri endanum, má þar nefna Krumma Björgvins og krákurnar, Langa sela og skuggana, Keith og strákana og Ebeneser blúsband. Keith og strákarnir er fantagott band sem flytur eingöngu Rolling Stones tónlist, þar er mikil spilagleði sem rífur upp stuð og stemningu. Langi Seli er að gera góða hluti í framhaldi af söngvakeppninni í vor sem leið, og hafa túrað um landið með tónleika við mikla hrifningu viðstaddra. Krumma þarf vart að kynna fyrir þjóðinni, sem er með frábært band sér til aðstoðar sem leikur country tónlist af algjörri snilld. Blúsbandið Ebeneser er skipað þekktum mönnum sem nánast allir hafa komið áður á blúshátíð áður með öðrum böndum. Þetta verður engin tregi eða tár, heldur rokkaður stuð blús af bestu gerð.

Við félagsheimilið á Patreksfirði þar sem öll þessi dagskrá fer fram er tjald og hjólhýsasvæði, með aðstöðu eins og best gerist fyrir ferðamenn. Vonandi sjáum við sem flesta Vestfirðinga á þessari árlegu blúshátíð sem hefur rækilega fest sig í sessi á Patreksfirði.

Facebooksíðan Blús milli fjalls og fjöru geymir fjölda mynda og umfjallanir um liðna viðburði sem og þennan.

DEILA