Sæbýli: Vala Valþórsdóttir ráðin forstjóri

Sæbýli, leiðandi hátæknifyrirtæki í þróun framleiðsluaðferða við landeldi á sæeyrum (e. abalone) tilkynnti á fimmtudaginn um ráðningu Völu Valþórsdóttur í stöðu forstjóra fyrirtækisins. Vala hefur störf 1. september næstkomandi.

Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis, sem áður var frumkvöðull í laxeldi á Vestfjörðum segir að sæeyraeldi sé mjög spennandi kostur í nýsköpun á Íslandi. Sæeyra, sem er í raun sæsnigill með kuðung á bakinu er mjög verðmæt afurð , um það bil fimm sinnum hærra í verði en laxinn. Eldisferlið tekur um þrjú ár frá klaki til sölu og sæeyrað er alið i kerjum í Grindavík á landi og fóðrað m.a. með þara. Nýtt er vatn frá Svartsengi og jarðvarminn hitað sjóinn í 18 – 20 gráður. Sigurður segir að stefnt sé að 200 tonna framleiðslu innan þriggja ára og 1000 tonna framleiðslu eftir 7 ár. Sæeyrað er selt lifandi sem matvara og er notað í sushi. Fullvaxið dýr verður um 70 grömm að þyngd.

Stofnandi Sæbýlis, Ásgeir Guðnason, sem áður gegndi hlutverki forstjóra mun í kjölfar ráðningarinnar taka við stöðu framkvæmdastjóra rannsóknar og þróunar þar sem hann mun einbeita sér að áframhaldandi þróunar- og nýsköpunarstarfi fyrirtækisins.

Vala er lögfræðingur að mennt og hefur umfangsmikla reynslu af viðskiptum og stjórnun. Áður starfaði Vala sem viðskiptaþróunarstjóri hjá Landsvirkjun þar sem hún bar ábyrgð á tækifærasköpun væntanlegra viðskiptavina Landsvirkjunar og studdi uppbygginu grænna iðngreina. Þar áður var hún í framkvæmdastjórn 66°Norður þar sem hún gegndi stöðu rekstrar- og sölustjóra.

Það er mikill ávinningur að fá Völu inn sem forstjóra til að leiða næsta fasa í vexti Sæbýlis. Hún býr yfir margþættri og alþjóðlegri reynslu úr fyrri störfum sem mun án efa koma sér vel þegar kemur að komandi sókn fyrirtækisins inn á nýja markaði. Sæbýli hlakkar til samstarfs við Völu í þeirri markvissu stefnu um að auka framleiðslu og árangur fyrirtækisins.“ segir Sigurður Pétursson, stjórnarformaður Sæbýlis.

Sæbýli var stofnað árið 1993 af Ásgeiri Guðnasyni sem hefur lagt tugi ára í þróun og aðlögun á einni verðmætustu eldistegund heims sem á uppruna sinn við hlýsjávaraðstæður í Japan. Fyrirtækið hefur þróað nýstárlega og leiðandi sjálfbæra hátækniaðferð við ræktun sæeyrna sem byggir á lóðréttu eldiskerfi. Starfsemin er í Grindavík þar sem heitur jarðsjór og endurnýjanleg orka frá Reykjanesvirkjun er nýtt til að knýja framleiðslu fyrirtækisins. Stefnt er á uppbyggingu áframeldis á Reykjanesi á næsta ári. Sæbýli horfir m.a. á framleiðslu fyrir hágæða veitingastaði fyrir Evrópu, Bandaríkin og Asíu.

Áratugalöng þróunar- og rannsóknarvinna hefur komið Sæbýli á þann stað sem það er í dag. Nú hefst nýr kafli í sögu fyrirtækisins þar sem við ætlum að byggja á þessum trausta grunni. Nýsköpun og hugmyndaauðgi er og verður lykillinn að okkar velgengni.“ segir Vala Valþórsdóttir, nýráðinn forstjóri Sæbýlis. „Við munum einsetja okkur að hugsa út fyrir rammann, tileinka okkur framúrstefnulegar tækninýjungar og sækja fram á nýja markaði. Það er sannur heiður að leiða hið frábæra teymi sem nú þegar starfar hjá Sæbýli, saman munum við skrifa þennan nýja kafla og raungera þær metnaðarfullu áætlanir sem fyrir liggja, enda eru vaxtamöguleikarnir gífurlegir.“

DEILA