Óleiðréttur launamunur karla og kvenna 9,1% árið 2022

Óleiðréttur launamunur karla og kvenna var 9,1% árið 2022 og dróst saman frá fyrra ári úr 10,2 að því er kemur fram í tölum Hagstofunnar. 

Launamunur jókst eftir aldri og var munurinn 0,7% á meðal 24 ára og yngri, 8,8% í aldurshópnum 35-44 ára og 16,3% á meðal 55-64 ára. Mikill munur var á launamuni eftir atvinnugreinum.

Í fjármála- og vátryggingastarfsemi var munurinn 26,2% en minnstur í rafmagns- gas og hitaveitum eða 4,1%.

Launamunur karla og kvenna eftir starfsstétt var á bilinu –0,5% hjá skrifstofufólki og 20,5% á meðal tækna og sérmenntaðs starfsfólks. Ein helsta skýring þess launamunar sem er til staðar á Íslandi er kynbundin skipting í störf og atvinnugreinar samanber rannsókn á launamun karla og kvenna sem kom út árið 2021.

Þar kemur fram að um 43% kvenna sem voru á vinnumarkaði árið 2019 störfuðu hjá hinu opinbera en einungis um 15% karla. Launamunur var 13,5% á almennum vinnumarkaði, 9,1% hjá starfsfólki ríkisins og 6,1% á meðal starfsfólks sveitarfélaga.


Launadreifing eftir kyni fyrir allan vinnumarkaðinn sýnir áhrif kynskipts vinnumarkaðar þar sem hlutfallslega fleiri konur eru í lægra launuðum störfum en karlar. Þeir raðast frekar á hægri hala dreifingarinnar þar sem tímakaup er hærra. Auk þess vinna karlar að jafnaði meiri yfirvinnu en konur og eru því með hærra tímakaup. Hátt hlutfall yfirvinnustunda hefur áhrif til hækkunar á tímakaupi þar sem yfirvinnustund er að jafnaði dýrari en dagvinnustund.

Óleiðréttur launamunur er samanburður á meðaltali og þar sem laun eru almennt ekki normaldreifð þá hafa útgildi (há laun) áhrif til hækkunar á meðaltali. Þar sem algengara er að karlar séu með laun í hæsta launastigi getur það því ýkt launamuninn.

DEILA