Rafmagnslaust á Vestfjörðum í gær

Varaaflsstöð Landsnets í Bolungavík. Mynd: Kristinn H. Gunnarsson.

Geiradalslína er ekki að flytja rafmagn vestur þessa daga. Elías Jónatansson, Orkubússtjóri staðfestir við Bæjarins besta að línan hefði verið úti á þriðjudag, í gær og yrði einnig ekki virk í dag vegna vinnu Landsnets við fyrirbyggjandi viðhald á línunni í Gilsfirði. Þessa daga er því varaaflsstöðin í Bolungavík keyrð til þess að útvega Vestfirðingum nauðsynlegt rafmagn.

Í gær kom upp bilun í varaaflinu í morgun og segir Elías að verið sé að greina nákvæmlega hver ástæðan var, en flest bendir til að orsök þess að tíma tók að fá varaafl inn aftur, liggi í bilun í fjarskiptabúnaði.

Straumlaust varð í Bolungavík að hluta til, Tálknafirði, Dýrafirði og Önundarfirði og stóð rafmagnsleysið í um eina klukkustund.

Raforkuframleiðsla á Vestfjörðum annar tæplega helmingi þess sem fyrirtæki og heimili þurfa og er treyst á að flytja rafmagn vestur eftir Vesturlínu. Er af þeim sökum nauðsynlegt að hafa allmikið varaafl tiltækt sem er framleitt með dísilolíu þegar þörf er á. Orkubú Vestfjarða hefur hafið undirbúning að 9,9 MW virkjun í Steingrímsfirði og hefur óskað eftir heimild til þess að hefja umhverfismat í Vatnsfirði að 20 – 30 MW virkjun. Hvalárvirkjun með 55 MW afl hefur verið samþykkt í rammaáætlun. Rannsóknir standa yfir en nýjar kröfur ríkisins um þjóðlendu á virkjanasvæðinu fyrir Óbyggðanefnd skapa óvissu um eignarhald á landinu og vatnsréttindum. Búist er við því að nefndin úrskurði um kröfurnar nú í haust.

DEILA