Beint frá býli: opið hús á Brjánslæk á sunnudaginn

Í tilefni af 15 ára afmæli samtakanna beint frá býli verður á sunnudaginn 20. ágúst frá kl 13 – 17 kynning um land allt á því sem boðið er upp á. Á Vestfjörðum verður opið hús á Brjánslæk á Barðaströnd. Þar munu 6 býli á Vestfjörðum kynna vöru sína og þjónustu.

Á Brjánslæk er að sögn Jóhanns Péturs Ágústssonar, bónda er fjárbúskapur og kjötframleiðsla. Hægt er að kaupa hangikjöt, bjúgu og fl. Auk þess er gisting og kaffihús í gamla bænum og boðið er upp á skoðunarferðir í surtarbrandsnámu skammt frá bænum. Í boði verður afmæliskaka, kaffi og djús.

Fimm önnur býli á Vestfjörðum verða kynnt á Brjánslæk á sunnudaginn. Það eru Móra ehf á Krossholtinu á Barðaströnd, sem er með gistingu, selur lambakjöt og rauðmaga, Gemlufall í Dýrafirði, en það er fjárbúskapur og ferðaþjónusta, Nesskel í Króksfjarðarnesi sem er með bláskeljaeldi, Hvammur á Barðaströnd sem selur nautakjöt og Litlabýli á Flateyri sem framleiðir öskjur með hjónabandssælu mixi ásamt sultu sem og aðrar sultur og marmelaði. Eins rekur Litlabýli gistingu á Sæbóli III, Ingjaldssandi.

DEILA