Vesturbyggð: alþjóð­lega píanó­há­tíðin á Vest­fjörðum hófst í gær

Alþjóðlega píanóhátíðin á sunnanverðum Vestfjörðumhófst í gær með tónleikum á Patreksfirði. Fram komu nemendur sem hafa verið í master class undanfarna daga. Tónlistarmönnum er boðið víðan að úr heiminum til að koma og hanna prógram, með sína einstöku listrænu sýn sem flutt er svo á tónleikunum. Ásamt því kenna þeir á meistaranámskeiði sem haldið er fyrir nemendur í samfélaginu sem er síðan lokið með tónleikum. 

Á morgun fimmtudag, verða tónleikar á Tálknafirði kl 20 í kirkjunni.

Píanóleikarar hátíðarinnar að þessu sinni eru Antoinette Perry frá Bandaríkjunum, prófessor í USC Thornton School of Music í Los Angeles, Dr. Nína Margrét Grímsdóttir, formaður framhaldsnáms við Tónlistarskóla Sigursveins D. Kristinssonar, Myung Park frá Suður-Kóreu og Frakklandi, tónskáld og píanóleikari með aðsetur í París, og Andrew J. Yang frá Bandaríkjunum.  

Á laugardaginn verða svo tónleikar kl 20 á Patreksfirði að Aðalstræti 107 með sömu listamönnum sem flytja tónlist frá Spáni.

Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í fyrra að frumkvæði Andrews J. Yang sem er jafnframt listrænn stjórnandi hennar. Hátíðin hlaut Eyrarrósina, verðlaun veitt framúrskarandi menningarverkefnum utan höfuðborgarsvæðisins, fyrr á árinu. Þar að auki hefur hátíðin hlotið styrki víðs vegar að, þar á meðal frá menningar- og ferðamálaráði Vesturbyggðar.

DEILA