Strandabyggð: athugasemd við hækkun útsvars

Hólmavík

Íbúi í Strandabyggð hefur snúið sér til Innviðaráðuneytisins með athugasemdir við hækkun útsvarsprósentu fyrir yfirstandandi ár. Sveitarstjórn samþykkti í desember síðastliðnum 0,22% viðbótarálagningu og er innheimt 15,17% útsvarsprósenta í stað 14,95%. Athugasemdin er sú að samþykkt sveitarstjórnarinnar sé önnur en þessi og sé aðeins um 0,22% hækkun á álagningarprósentunni sem gerir það að verkum að álagningin eigi að vera 14,98%.

Innviðaráðuneytið hefur sent Strandabyggð bréf vegna þessa og var það lagt fram til kynningar á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku. Bréfið hefur ekki verið birt og sveitarstjóri Strandabyggðar hefur ekki svarað erindi Bæjarins besta um afrit af bréfinu.

Minnihlutinn í Strandabyggð, A listinn, lét bóka á fundinum að það teldi að mistök hefði orðið í afgreiðslu málsins og að samþykktin væri um hækkun álagningarprósentu úsvars í 14,98% en ekki 15,17% eins og að var stefnt. Afgreiðslan stæði og henni yrði ekki breytt nema með annarri samþykkt sveitarstjórnar. „Við teljum því að Strandabyggð verði að standa við þessa ákvörðun sína eins og hún er bókuð í fundargerð og útsvarsprósenta Strandabyggðar verði því 14,98%.” segir í bókun A listans.

Meirihluti Strandabandalagsins , T lista bókaði að þar sem Innviðaráðuneytið væri með málið til umfjöllunar og hefði ekki fengið greinargerð Strandabyggðar í hendur teldi Strandabandalagið ekki tímabært að lögð sé fram bókun sem mætti túlka sem niðurstöðu málsins.

DEILA