Blábankinn: Markmiðið að finna flæði í tungumálinu

Á sunnudag efnir Blábankinn til spilasamkomu þar sem væntanlegt borðspil verður prófað. B.Eyja er borðspil sem hjálpar þátttakendum að læra íslensku en Fanny Sissoko átti hugmyndina að spilinu og fékk til liðs við sig vestfirðinginn Helen Cova, rit- og borðspilahöfund, en hún hannaði spilið og reglurnar út frá upplýsingum úr rannsóknum Fanny. „Ég fékk hugmyndina árið 2020 þegar ég flutti til Íslands og byrjaði að læra íslensku af alvöru. Íslensk málfræði getur verið sérstaklega frústrerandi. Ég er ekki manneskja sem getur sest niður og lært fallbeygingar endalaust, þá bjó ég til smá leik og sjónrænt kerfi – bara fyrir sjálfa mig,“ útskýrir Fanny. „Svo fékk ég styrk frá Hönnunarmiðstöð til að rannsaka hvort það væri tækifæri til að hanna eitthvað svoleiðis fyrir fleira fólk. Ég talaði við 20 manns um reynslu þeirra af að læra íslensku og lærði að eitt sem stoppar fólk oft er óttinn við að gera mistök og skortur á tækifærum til að tjá sig á íslensku á öruggan hátt. Og borðspil henta mjög vel fyrir bæði vandamálin.“ Þær stöllur fengu einnig Hildi Loftsdóttur, rithöfund og íslenskukennara, til ráðgjafar við hönnunina.

Fanny Sissoko.

Hvernig virkar B.Eyja? „Markmið spilara er að yfirbuga eyju sem heitir Beyja, með því að ljúka verkefnum sem gerir þeim kleift að æfa málfræði án þess að ofhugsa. Borðspilið inniheldur 4 minni spil sem æfa sögugerð, ljóðagerð og sjálfstjáningu. Á hverju spili er myndskreyting sem hjálpar fólki að muna merkingu og beygingu orða og setninga. Spilarar þurfa að vinna saman og geta hjálpað hverjir öðrum – það er engin keppni.“ 

Fyrir hver er spilið? „Spilið er ætlað nemendum með grunnskilning í íslensku en hafa ekki öðlast sjálfstraust til að tjá sig á íslensku. Þegar ég framkvæmdi rannsóknina fann ég að það var hópur af fólki sem hafði góðan grunn í íslensku, hafði farið á nokkur námskeið en þorðu ekki að nota tungumálið í daglegu lífi, af allskonar ástæðum. Það getur verið erfitt að læra tungumál sem fullorðinn og þurfa allt í einu að tala eins og barn, sérstaklega þegar þú ert að reyna að byggja upp líf í nýju landi. En það er líka hægt að spila með fólki sem er aðeins lengra komið, eða jafnvel sem talar reiprennandi íslensku.“

Helen Cova.

Fanny segir að við hönnun borðspils þurfi að prófa það oft með mismunandi fólki en viðburðurinn í Blábankanum er sjötta prófun á spilinu sem alltaf tekur einhverjum breytingum. „Eitthvað sem þér finnst skemmtilegt þegar þú skrifar leikreglurnar getur orðið mjög leiðinlegt þegar fólk er að spila. Við Helen erum alltaf að breyta reglunum og bæta efnið – helst til að einfalda leikinn. Við byrjuðum til dæmis með flókið stigakerfi, sem við erum núna búin að taka út af því fólk var að eyða allt of miklum tíma í að telja stig, sem braut flæðið. Í byrjun vorum við líka að hugsa um málfræðiæfingar, en það var bara ekki skemmtilegt, svo við ákváðum að leyfa fólki að gera málfræðimistök – markmið spilsins er fyrst og fremst að finna flæði sitt í tungumálinu, ekki að tala fullkomlega.“ 

Fanny segir þær vonast til að spilið B.Eyja komi út fyrir jólin en staðan á því verði tekin eftir að niðurstöður prófunarinnar á sunnudag liggi fyrir. Spilavinnustofan í Blábankanum á Þingeyri fer fram á sunnudag, 13. ágúst kl. 11:00 og er opin öllum áhugasömum, jafnt móðurmálshöfum sem og byrjendum í íslensku. Viðburðurinn fer fram bæði á íslensku og ensku.

DEILA