Dagur 2 á Act alone

Hin einstaka leiklistar- og listahátíð Act alone á Suðureyri hófst í gær.

Einstaklega góð mæting og stemning var á opnunarkveldinu sem hófst með fiskiveislu Íslandssögu. Enda mikilvægt að hefja leik með því að seðja magann áður en sálin er fóðruð. Act alone heldur áfram í kveld með fjórum einstökum viðburðum.

Fyrst á senu er einleikurinn Hið stórfenglega ævintýri um missi með Grímu Kristjánsdóttur. Leikur þessi var sýndur í Tjarnarbíó í vetur við einstaklega góðar viðtökur og því fengur að fá sýninguna hingað vestur.

Ekki er síður stófengleg næsta sýning kveldsins og er þar að auki frumsýning. Hér er á ferðinni einstakt dansverk er nefnist Skin. Höfundur og dansari er Klāvs Liepiņš.

Hinn vestfirski Helgi Björnsson stígur á svið í Félagsheimilinu á Suðureyri klukkan 22.11 í kveld.

Helgi er einstaklega fjölhæfur listamaður ekki bara söngvari heldur og leikari og elegans listamaður. Það er næsta víst að hann mun mæta með bestu útgáfuna af sér. Allir helstu slagarar kappans eru á efnisskránni og þó hann rigni þá er það bara næs því okkur finnst jú öllum rigningin góð.

Laust eftir hálftólf í kveld eða nánar tiltekið 23.31 stígur hinn einstaki töfra- og listamaður Lalli á svið með uppistand, töfra og almennt rugl. Sýningin er ekki fyrir börn.

Frítt er á alla viðburði Act alone einsog verið hefur frá upphafi.

Að lokum er rétt að minna á langferðabifreið Act alone sem gengur daglega millum Ísafjarðar og einleikjaþorpsins Suðureyri.

Langferðabifreiðin fer frá Ísafirði kl. 18.31 og leggur upp frá Nettó planinu. Vart þarf að geta þess en gerum það samt að það er ókeypis í langferðabifreið Act alone og því upplagt að vera soldið umhverfisvæn.

DEILA